Brunahólfun

Komum í veg fyrir útbreiðslu elds og reyks

Veggir á milli íbúðar og bílskúrs eiga að vera að minnsta kosti EI60 og eiga að ná upp í þak. Hurð á milli íbúðar og bílskúrs á að vera að minnsta kosti EI-SC30, það eru hurðir sem þola að minnsta kosti þrjátíu mínútna brunaálag. Þær eru reykþéttar og sjálflokandi. Hurðin má ekki opnast beint inn í íbúðina, heldur inn í forstofu eða sambærilegt lokanlegt rými. Ef geymslukjallari er undir húsinu þurfa veggir að hafa að minnsta kosti 60 mínútna brunaþol og hurð þyrfti að vera minnst EICS30.

 

Ef sorpgeymsla er innbyggð skulu veggir hennar vera að minnsta kosti EI60. Ekki á að vera innangengt í sorpgeymslu heldur skal aðkoma að henni vera utanfrá, dyr að þeim eiga að vera læstar.

 

Sorptunnur á ekki að staðsetja of nærri brennanlegum útveggjum, og ekki undir gluggum bygginga, það er að minnsta kosti þremur metrum frá timburvegg og tveimur metrum frá járnklæddum timburvegg.

 

Best er að byggja sorpgeymslu úr óbrennanlegum efnum. Slík geymsla getur staðið upp við timburbyggingu. Geymslan þarf að vera læst.

 

Ef göt eru á milli brunahólfa, til dæmis á milli íbúðar og bílskúrs þarf að þétta þau með viðurkenndum efnum það er að segja steinull og múr eða steinull og eldvarnaefnum. Blikkrör í þakrými þarf að einangra með netull og vefja hana með tveggja millimetra vír.