Brunavarnir Árnessýslu og Mannvirkjastofnun gerðu með sér samning undir lok síðasta árs að Brunavarnir Árnessýslu myndu endurgera hluta af námsefni eldvarnaeftirlitsmanna á Íslandi. Einnig myndi BÁ halda námskeið númer eitt af þeim þremur námskeiðum sem eldvarnaeftirlitsmenn á landinu þurfa að taka. 

Námskeiðið hófst í morgun og verður alla vikuna í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi. 

Fyrsti fyrirlesari námskeiðsins var Höskuldur Einarsson sem er slökkviliðmönnum landsins vel kunnugur. Höskuldur fór yfir eftirlit með hættulegum efnum auk þess sem nokkrar tilraunir voru gerðar með hættuleg efni. 

Alls munu koma um 20 leiðbeinendur að námskeiðinu frá ýmsum aðilum og stofnunum. 

Pétur Pétursson fimmtudagurinn 31. október 2019

Æfingar stjórnenda BÁ með ISAVIA

1 af 3

Það verður seint fullmetið hversu mikilvægar æfingar slökkviliðsmanna eru sem og annarra aðila sem koma að björgun fólks. 

Störf innan raða slökkviliðsmanna eru misjöfn og mikilvægt að gleyma ekki neinum verkþáttum þegar kemur að æfingum. 

Þegar bílar og mannskapur slökkviliðs mætir á vettvang, er fyrsta verk stjórnanda að meta vettvang. 

Hvað er við að fást, fyrstu aðgerðir og gera frumáætlun eins fljótt og auðið er þegar á vettvang er komið, sem allur viðbragðshópurinn skilur og skilur á sama hátt. 

Það er ekki alltaf auðvelt að ná yfirsýn á vettvangi, þegar mikið liggur við og ábyrgðin getu verið mikil á stjórnandann. 

Brunavarnir Árnessýslu fengu til sín fyrr á þessu ári leiðbeinendur frá Noregi sem kynntu fyrir okkur hvernig stjórnendur þar og í Svíþjóð ná yfir sýn með svo kölluðu sjöspora kerfi. Þar styðst stjórnandinn við ákveðin spor til að fá yfir sýn um hvaða aðgerðir eru nauðsynlegar, hvaða búnaður og mannafli. 

Þetta þarf að æfa reglulega og það gerðum við í vikunni á skemmtilegan og árangursríkan hátt með hjálp ISAVIA.  

ISAVIA hefur yfir að ráða hermi forriti þar sem hægt er að setja upp vettvang á gagnvirkan hátt fyrir viðbragðsaðila í tölvu, sem síðan er hægt að kasta upp á stóran skjá til þess að allt verði sem raunverulegast. 

Allar mögulegar hliðar útkalla viðbragðsaðila er hægt að framkalla í þessu forriti.  

Stjórnandi forrotsins getur látið vettvanginn þróast á skjá fyrir framan stjórnanda slökkviliðsins eftir því til hvaða aðgerða hann grípur í forritinu.  

Æfingin verður mjög raunveruleg þó svo setið sé inni í kennslustofu. Hljóð og mynd sjá til þess að álagið verður umtalsvert.  

Varðstjórar Brunavarna Árnessýslu voru mjög ánægðir með raunverulega og krefjandi æfingu og eigum við ISAVIA bestu þakkir fyrir að gefa sér tíma til þess að undirbúa æfinguna fyrir okkur og senda mann og búnað til að keyra æfinguna. 

Pétur Pétursson fimmtudagurinn 31. október 2019

Eldur í Ölfusi 28.10.2019

1 af 2

Vegfarendur tilkynntu Neyðarlínu 112 um að talsverður eldur væri við bæ einn í Ölfusi síðastliðið mánudagskvöld. 

Myrkur var orðið og mikinn bjarma stafaði af eldinum sem sást langar leiðir. Eðlilega hugsa vegfarendur að þarna gæti hafa farið illa og kalla eftir hjálp fyrir þann sem í vanda gæti verið staddur. 

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu voru kallaðir út og lögðu af stað til þess að sinna slökkvistörfum og miðað við lýsingu var ekki ólíklegt að þarna væri um eld í húsi að ræða. 

Fljótlega eftir að slökkviliðsmenn voru lagðir af stað kom í ljós að þarna var ekki um eld í byggingu að ræða heldur var aðili að brenna rusli. 

Og þá spyr fólk sig “er það bara í lagi”? 

Og stutta svarið við því er, nei, það er ekki í lagi. 

Í lögum nr. 40 frá árinu 2015 segir skýrt í annarri grein að “opin brenna úrgangs sé óheimil”. Þó er heimilt að brenna bálköst sé hann undir einum rúmmetra. Hins vegar þarf að fá leyfi fyrir brennunni ef hún stendur lengur yfir en í eina klukkustund samkvæmt reglugerð nr.325 frá árinu 2016. 

Það gefur því auga leið að einungis má brenna hreinu timbri í bálkesti undir einum rúmmetra sem logar ekki lengur í en eina klukkustund. Að sjálfsögðu þarf síðan að gæta fyllstu varúðar þannig að eldurinn geti ekki breytt úr sér. 

Ruslið sem þessi aðila var að brenna var einungis timbur en magnið var talsvert yfir því magni sem má brenna í einu og útskýrir það hve mikinn bjarma stafaði var af eldinum. 

Ætli maður sér að brenna bálköst í myrkri þar sem til sést langar leiðir er sjálfsögð kurteisi að láta vita hjá viðkomandi slökkviliði eða lögreglu hvað standi til. Það kemur að öllum líkindum í veg fyrir að mikið lið viðbragðsaðila sé boðað á staðinn með tilheyrandi hættu í umferðinn, óþægindum og kostnaði. 

miðvikudagurinn 14. ágúst 2019

Gróðureldar

1 af 2

Brunavarnir Árnessýslu voru kallaðar út fyrir hádegi í dag vegna gróðurelda á Nesjavallaleið.

Ekki var um stórt svæði að ræða en eldurinn var í mosa. Eldur í mosa getur mallað í nokkurn tíma áður en hann tekur sig upp. Það getur því verið snúið að tryggja að ekki leynist glóð eða eldur í mosanum áður en vettvangur er yfirgefinn.

Það eru kjör aðstæður fyrir gróðurbruna í dag, gróður og jarðvegur er töluvert þurr og þarf því ekki mikið til að kveikja eld í honum. Glóð frá sígarettu getur verið nægjanleg til að kveikja eld og þegar að vindur er eins og hann hefur verið síðustu daga getur eldurinn breiðst hratt út.

Við viljum biðja ykkur um að fara varlega með eld og aðra hitagjafa nálægt gróðri. Hafið augun opin og bregðist við ef þið verðið elds vart.

Viljum að lokum einnig benda aftur á síðuna grodureldar.is þar sem hægt er að finna mikið af góðri fræðslu.

fimmtudagurinn 1. ágúst 2019

Gengið af göflunum

1 af 2

Um verslunarmannahelgina munu slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu, Slökkviliði Akureyrar, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Brunavörnum Austur-Húnvetninga hlaupa 340 km leið til að safna áheitum fyrir hitakassa á barnadeild Sjúkrahúss Akureyrar. Hlaupaleiðin er ekki af hefðbundnum toga. Hlauparar munu leggja af stað á á föstudaginn frá slökkvistöðinni á Akureyri og sem leið liggur yfir Sprengisand og enda á sunnudaginn í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi.

Með þeirra orðum:

Þetta verður sem sagt löng og krefjandi leið ... líklega þurfum við nokkra plástra og smá svefn eftir þetta en það verður þess virði. Við erum 6 hlaupara og við myndum gleðjast mikið ef þið mynduð sýna okkur þann stuðning sem við erum að sækja eftir. Það væri okkur mikil ánægja ef þið myndum heita á þetta hlaup með leggja einhverja smá upphæð á reikning Hollvinasamtaka Sjúkrahússins á Akureyri en við erum einmitt núna í samvinnu með þeim að safna fyrir hitakössum á barnadeildina og Gjörgæslu Sjúkrahússins.
Kennitala hollvinasamtakanna er 640216-0500 og reikningsnúmer 0565-26-10321

Ekki væri verra ef þið gætuð montað ykkur af því að hafa stutt við okkur og deilt því með vinum ykkar og svo á síðunni okkar Gengið af Göflunum. Hlaup og sviti!!! 
kv
Hörður

Við hvetjum ykkur til að fylgjast með og styrkja þessar hetjur, hér er slóðinn á viðburðinn.
https://www.facebook.com/events/456639478505372/

Við erum stolt af að eiga fulltrúa í þessum hóp, það er hann Sigurður Páll slökkviliðsmaður Brunavarna Árnessýslu í Hveragerði.

Góða ferð