Pétur Pétursson föstudagurinn 12. júní 2015

12.6.2015 Hvað er slökkvilið?

1 af 2

Okkur barst fyrirspurn á vef slökkviliðsins um hvað slökkvilið væri og eftir hvaða regluverki þau færu. Hér fyrir neðan er leitast við að svara þessari spurningu á eins stuttan hátt og mögulegt er.

 

Slökkvilið eru forvarnar og öryggisstofnanir sveitarfélaganna. Um tilveru þeirra og starfsemi eru afar stífar laga- og reglugerðakröfur.

 

Verkefni slökkviliða eru:

  1. Vatnsöflun  og slökkvistarf utanhúss.
  2. Slökkvistarf innanhúss og reykköfun.
  3. Viðbrögð við mengunar- og eiturefnaslysum, eiturefnaköfun.
  4. Björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum og farartækjum.
  5. Eldvarnaeftirlit og forvarnir, þ.m.t. eftirlit með einkabrunavörnum.

 

Slökkviliðin eru rekin af sveitarfélögunum undir stífu regluverki ríkisvaldsins. Í lögum nr.75/2000 segir:

 

10.gr: „Sveitarstjórn hver í sínu umdæmi ber ábyrgð á starfsemi slökkviliðs og framkvæmd eldvarnaeftirlits. Sveitarfélag ber kostnað af þessari starfsemi“.

 

Það er að segja, það er lagaleg skylda sveitarfélaga að reka slökkvilið.

 

11.gr „Sveitarfélagi er skylt að sjá um að starfsemi slökkviliðs fullnægi kröfum samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra“.

 

Það á því við í þessu eins og öðru að sveitarfélögum ber að fara eftir lögum og reglugerðum er lúta að þessum málaflokk.

 

16.gr „Slökkviliðsstjóri hefur eftirlit með því í sínu umdæmi að farið sé eftir lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim“.

 

Það er hlutverk slökkviliðsstjóra að sjá til þess að farið sé að lögum þrátt fyrir að slökkviliðsstjórinn sé starfsmaður sveitarfélaganna þá er það hans lagalega skylda að sjá til þess að sveitarfélögin fari að þeim lögum er lúta að brunavörnum og starfsemi slökkviliða.

 

16.gr „Slökkviliðsstjóri stjórnar slökkvistarfi við eldsvoða og hefur stjórn á vettvangi við mengunaróhöpp á landi. Við þessi störf er löggæslulið og opinberir eftirlitsaðilar undir yfirstjórn slökkviliðsstjóra“.

 

Allt það starf sem unnið er á vettvangi er á ábyrgð slökkviliðsstjórans og getur það fjártón sem hlýst af slökkvistarfi og ekki er tryggt af viðkomandi vátryggingafélagi fallið á sveitarfélögin samkvæmt 21.grein sömu laga.

 

16.gr „Slökkviliðsstjóra ber að sjá um fræðslu slökkviliðsmanna og þjálfun þeirra í brunavörnum, björgunarstörfum og viðbrögðum við mengunaróhöppum og að haldnar séu reglubundnar æfingar slökkviliðs“.

 

Skýrt er kveðið á um þjálfunarmál slökkviliðsmanna í  reglugerðum tengdum málaflokknum, hvað ber að æfa og hversu mikið.

 

20.gr „Slökkviliðsstjóra og eftirlitsmönnum hans skal heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal til myndatöku, á öllum þeim stöðum þar sem skoðunar eða eftirlits er þörf samkvæmt lögum þessum. Ekki er þó heimilt að fara í þessum tilgagni inn í íbúðarhús sem tekið hefur verið í notkun án samþykkis eiganda eða umráðamanns húsnæðis nema að fengnum úrskurði dómara“.

Í reglugerði nr.198/1994 gr.5.1 segir síðan „Eftirlit skal að jafnaði framkvæma án fyrirvara og meðan mannvirkið er í notkun“.

 

Í reglugerðum er síðan tekið á um hver tíðni eldvarnaeftirlitsskoðana á að vera eftir því um hvaða starfsemi er að ræða.

 

21.gr. „Þegar eldsvoða eða mengunaróhapp ber að höndum er hverjum manni skylt að leyfa aðgang að húsi sínu og lóð og una því að brotið verði niður og rutt burt því sem til fyrirstöðu er við slökkvistarf eða aðgerðir vegna mengunaróhapps. Heimilt er að rífa niður byggingar ef slökkviliðsstjóri álítur það nauðsynlegt til að stöðva útbreiðslu elds eða mengunar. Slökkvilið hefur rétt til að nota öll tæki og áhöld sem til næst og að gagni koma við störf sín þegar eldsvoða eða mengunaróhapp ber að höndum“.

 

Gríðarlega ábyrgð hvílir á herðum slökkviliðsstjóra og eru valdheimildir hans yfirgripsmiklar.

Starfsemi slökkviliða er yfirgripsmikil og sinna þau oft mun fleiri verkþáttum en um er getið í lögunum eins og til dæmis sjúkraflutningum, björgunarköfun, fjallabjörgun, björgun úr sjó og vötnum og svo mætti lengi telja.

Að auki eru ýmis verkefni tengd aðstoð við eigendur sína (íbúa sveitarfélaga), sem ekki er skilgreind í lögum, ekki óalgeng hjá slökkviliðum landsins.

 

En að lokum til þess að raunverulega svara spurningunni „Hvað er slökkvilið?“, þá er það auðvitað fyrst og fremst mennirnir sem það skipa.

 

Ég vona að  þetta svari á einhvern hátt spurningunni þó svo að þetta sé einungis tilvísun í míkróbrot af því regluverki sem yfir okkur ná.