Bílvelta varð um klukkan 18:30 í gærkvöldi 18.júní á móts við Böðmóðsstaði í Árnessýslu. Sjö manns voru í bílnum og var mikill viðbúnaður björgunarliðs viðhafður þar sem tilkynnt var að fólk kæmist ekki út úr bílnum.

Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu á Laugarvatni voru kallaðir til á tækjabíl auk þess sem mannskapsbíll frá Brunavörnum Árnessýslu á Flúðum var kallaður til ef skjól eða flutningstæki þyrfti fyrir fólk á staðnum.

Á þennan vettvang voru auk slökkviliðs boðaðir: Björgunarsveitin Eyvindur á Flúðum, Lögreglan á Suðurlandi og Sjúkraflutningar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

Ekki þurfti að beita klippum við að ná fólkinu út og voru allir komnir út þegar björgunarlið kom á vettvang. Allir farþegarnir sjö voru fluttir til aðhlynningar og skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.