miðvikudagurinn 7. mars 2018

Aðstoð vegna björgunar úr íshelli

 

 

Síðastliðinn miðvikudag, 28.febrúar, barst Brunavörnum Árnessýslu beiðni frá Lögreglunni um aðstoð við björgun úr íshelli.

Útkallið var ekki af hefðbundnum toga þar sem beðið var um reykkafara til að ná manni sem ekki hafði skilað sér úr íshelli í Hofsjökli. Vitað var að andrúmsloftið í hellinum á þessu stigi var það eitrað að björgunarmenn gætu ekki farið í hellinn án öndunarvarnar og bjargað viðkomandi út.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var staðsett á Vestfjörðum og var því ákveðið að fá slökkviliðsmenn frá Slökkviliði Ísafjarðarbæjar um borð í þyrluna. Þeim til aðstoðar sendu Brunavarnir Árnessýslu átta reykkafara frá slökkvistöð Brunavarna á Flúðum og Selfossi ásamt auka loftkútum og búnaði. Einnig voru slökkviliðsmenn sendir landleiðina yfir hálendið frá Blönduósi og félagar okkar frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins buðu fram aðstoð sína ef loftleiðin yrði fær.

Vegna veðurs og færðar var erfitt að komast á vettvang og þurftu björgunarsveitir að ferja reykkafara í jeppum þar til þeir komust ekki lengra vegna krapa og ófærðar. Þá var farið yfir á snjósleða og einnig voru snjóbílar sendir af stað ef á þyrfti að halda.

Þegar reykkafararnir að vestan komu á staðinn var þeirra fyrsta verk að meta aðstæður og staðsetja þann týnda. Þeir voru í sambandi við aðgerðarstjórn í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi og  unnum við saman að  aðgerðaráætlun sem var sett í gang um leið og reykkafarar frá Brunavörnum Árnessýslu komu á vettvang ásamt sjúkraflutningamönnum á Suðurlandi (Hsu). Ferðaþjónustuaðilar sem voru á staðnum veittu ómetanlega aðstoð í upplýsingaröflun og aðstoð við að ferja reykkafara ásamt Björgunarsveitum Landsbjargar.

Aðstæðurnar voru erfiðar til björgunar þar sem vettvangurinn var uppi á jökli, eitraðar lofttegundir, hnédjúpur snjór og möguleg hrun hætta í íshelli. Það er erfitt að reyna að lýsa með orðum þeim aðstæðum sem þarna var við að eiga en við getum verið þess fullviss að allir björgunaraðilar unnu sem ein heild að einu takmarki hvort sem þeir voru frá slökkviliðunum, sjúkraflutningunum, lögreglunni, björgunarsveitum eða Landhelgisgæslunni.

Á sama tíma og við viljum þakka fyrir það frábæra samstarf sem var á milli björgunaraðila sem komu að þessari aðgerð viljum við senda aðstandendum þess látna okkar dýpstu og innilegustu samúðarkveðjur.