Fjölmenn æfing slökkviliðsmanna Brunavarna Árnessýslu var haldin í gærkvöldi á Flúðum. Á æfinguna mættu slökkviliðsmenn frá Flúðum, Árnesi, Reykholti, Laugarvatni, Hveragerði og Selfossi. Á þessari æfingu skerptu menn á hæfni sinni í notkun hitamyndavélar, fjarskiptum reykkafara, stjórnanda reykkafara auk þess sem köld reykköfun var æfð bæði þar sem menn voru blindaðir og þurftu þar með að treysta á önnur skilningarvit en augun og þar sem menn reykköfuð í engu skyggni með hitamyndavél sér til aðstoðar.

Æfingin var verulega krefjandi eins og sjá má á myndunum, það er ekkert grín að leita að fólki í blindaðri reykköfun við aðstæður sem þessar og síðan að koma því út eftir að það hefur fundist.

Æfingar sem þessi eru einkar ánægjulegar þar sem slökkviliðsmenn frá mörgum starfsstöðvum koma saman til þess að samræma sín vinnubrögð og styrkja tengslin.