Brunavarnir Árnessýslu hafa yfir að ráða einni hitamyndavél sem notuð er í baráttunni við þann gula. Þetta tæki getur reynst reykköfurum afar vel við vinnu sína þar sem vélin gefur þeim sýn í engu skyggni. Einnig er hún notadrjúg þegar leitað er að svo kölluðum „eldhreiðrum“ sem geta leynst í veggjum bygginga sem kviknað hefur í.

Á meðfylgjandi myndum má sjá hvar horft er á reykkafara gegnum hitamyndavélina í engu skyggni. Húsið sem þarna var æft í var fyllt af gervireyk þar til menn sáu ekki handa sinna skil. Reykkafararnir sem eru á myndinni eru í um það bil tveggja metra færi frá myndavélinni en skyggnið fyrir mannsaugað var um það bil 20-30 sentímetrar.