Æfing var haldin mánudagskvöldið 8. febrúar síðastliðinn hjá Brunavörnum Árnessýslu í ýmsum þáttum björgunar. Að þessu sinni var æfingin „rólegheita æfing“ þar sem fræðilegu hliðar björgunarþáttanna voru spekúleraðar auk þess sem verklega var tekið á hlutunum innanhúss í huggulegheitum. Þeir þættir sem teknir voru fyrir voru notkun loftpúða til þess að lyfta þungum hlutum, notkun reykköfunarstjórnborðs, vatnsdælur, björgun fólks úr húsum, reykköfunartæki og vinna með hitamyndavél.

Slökkviliðsmenn frá fimm af átta slökkvistöðvum Brunavarna Árnessýslu komu saman á slökkvistöðina á Selfossi og áttu góða og fræðandi kvöldstund saman, en aðstaðan í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi er rúmgóð og einkar hentug til kennslu og þjálfunar.