Almannavarnir í Árnessýslu funduðu í gær með vettvangsstjórum Almannavarna frá Selfossi, Hveragerði og Ölfusi. Auk þeirra voru á fundinum svæðisstjórn björgunarsveita á svæði 3, fólk frá Rauðakrossdeildum á svæðinu, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Brunavörnum Árnessýslu og lögreglunni á Suðurlandi en lögreglustjórinn stýrir aðgerðum þegar að almannavarnaástand skapast. Fundurinn var haldin í sal Brunavarna Árnessýslu í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi.

 

Fundurinn var haldin í framhaldi af fundi sem haldin var í Skógarhlíð með Almannavörnum Ríkisins þann 18. júní síðastliðinn vegna smáskjálftavirkni á suðvesturhorni landsins.

 

Rögnvaldur Ólafsson, verkefnastjóri Almannavarna Ríkisins hélt erindi á fundinum þar sem hann fór yfir og skerpti á hlutverki hvers og eins ef til þess kæmi að aðgerðastjórn og vettvangsstjórnir yrðu kallaðar til starfa einhverja hluta vegna.

 

Í lok fundar var fundarmönnum skipt í hópa eftir svæðum þar sem farið var yfir hlutverk hvers hóps fyrir sig ef til almannavarnaástands kemur og hugarflæði beitt til þess að velta upp öllum mögulegum og ómögulegum aðstæðum sem upp kunna að koma.

 

Í lok fundar nýttu fundarmenn tækifærið og skoðuðu glæsilega aðstöðu björgunaraðila í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi.