föstudagurinn 10. apríl 2015

Alvarlegt umferðaslys á leið 35 við Tannastaði

Um kl. 20.30 í gærkvöldi, 9.4. 2014 var slökkviliðið kallað út vegna umferðaslyss við Tannastaði, nánar á leið 35, Biskupstungnabraut. Tilkynningin var að um mjög alvarlegt slys væri að ræða þar sem sex einstaklingar ættu hlut að máli.
Viðbragð var mjög snöggt hjá sjúkraflutningsmönnum, lögreglu og slökkviliði. Í ljós kom að tveir voru alvarlega slasaðir, en fjórir minna slasaðir. Mannskapsbíll BÁ var notaður til að flytja þá fjóra sem ekki þurftu mikla aðhlinningu í upphafi á sjúkrahúsið á Selfossi.
Hinir tveir voru settir í sjúkrabíla. Lífgunartilraunir voru þegar hafnar á þeim manni sem mest var slasaður og var þeim haldið áfram linnulaust þar til áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar tók við sjúklingnum upp á Hellisheiði og flutti hann á Borgarsjúkrahúsið.
Lögregla lokaði Hellisheiði tímabundið þannig að þyrlan gat lent á veginum óhyndrað.
Frá útkalli og þar til hinn slasaði var kominn á á bráðamóttöku liðu rúmlega þrjú korter.
Ekki kom til að beita þurfti klippum slökkviliðsins.
Mikil hálka var á veginum og var m.a. erfitt fyrir björgunaraðila að fóta sig.
Ástæða slyssins er án efa af völdum hálkunnar en bifreiðin valt útaf veginum.
Í morgun komu þær fréttir til okkar að sá einstaklingur sem mest var slasaður hefði látist, hinn væri ekki í lífshættu.