
Árekstur á einbreiðri brú yfir Stóru-laxá í Hrunamannahrepp 20.12.2017
Árekstur tveggja bíla varð á brúnni yfir Stóru-laxá í Hrunamannahrepp um klukkan tíu í morgun. Áreksturinn atvikaðist þannig að vöruflutningabifreið var ekið yfir brúna sem er einbreið, þegar að fólksbifreið var ekið inn á brúna úr gagnstæðri átt með þeim afleiðingum að fólksbifreiðin lenti framan á vöruflutningabifreiðinni.
Mikill viðbúnaður var hjá viðbragðsaðilum vegna slyssins en sex manns voru í bifreiðunum. Tækjabíll frá Brunavörnum Árnessýslu á Flúðum var sendur á vettvang, lögregla, sjúkraflutningar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands auk vettvangshjálparteymis frá Flúðum fóru á vettvang.
Allir þeir aðilar sem voru í fólksbifreiðinni voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi til nánari skoðunar en svo virðist sem að ekki hafi orðið alvarlegt slys á fólki við áreksturinn.
Vegurinn er ennþá lokaður og verður um hríð meðan að unnið er að því að ná bílunum af veginum.