1 af 2

Tækjabíll Brunavarna Árnessýslu frá Hveragerði var kallaður út rétt fyrir klukkan níu í morgun vegna bílveltu milli Hveragerðis og Selfoss. Afleit færð var á Suðurlandsvegi á þessum tíma, krapi og talsverð ofankoma. Slysið atvikaðist með þeim hætti að ökumaður missti stjórn á bifreiðinni vegna krapa á veginum og endaði hann utan vegar á toppnum ofan í skurði. Tveir menn voru í bílnum og komust þeir ekki út af sjálfsdáðum vegna legu bifreiðarinnar í skurðinum. Það vildi þeim til happs að ekki var mikið vatn í skurðinum á þessum stað en engu að síður voru þeir blautir og kaldir. 

Greiðlega gekk að ná mönnunum út eftir að slökkvilið, lögregla og sjúkraflutningsmenn komu á vettvang. Ökumaður og farþegi voru síðan fluttir með sjúkrabílum Hsu á sjúkrahús til nánari skoðunar en ekki er talið að þeir hafi hlotið alvarleg meiðsl.