Heimsleikar slökkviliðs og lögreglumanna (World Police and Fire Games) sem hófust 7. ágúst síðastliðinn enduðu í gær með glæsilegri lokahátíð.

Heimsleikarnir eru alþjóðleg íþróttakeppni sem haldin er á tveggja ára fresti. Að þessu sinni var hún haldin í Los Angeles í Bandaríkjunum en keppnin hefur verið haldin út um allan heim síðastliðin ár en gaman er að segja frá því að næstu leikar verða haldnir í Chengdu í Kína 2019.

Heimsleikarnir eru annar stærsti íþróttaviðburður í heimi á eftir Ólympíuleikunum en þúsundir keppenda frá um 70 þjóðum sem starfa við löggæslu, slökkvistörf, tollaeftirlit, fangavörslu eða landhelgisgæslu koma þar saman til þess að keppa í meira en 60 íþróttagreinum.

Keppendur frá Íslandi hafa tekið þátt í þessum leikum um árabil en þetta er í annað sinn sem keppandi frá Brunavörnum Árnessýslu tekur þátt.

Okkar maður Ingvar Sigurðsson slökkviliðsmaður hjá BÁ keppti í stigahlaupi þar sem keppendur þurftu að hlaupa upp 63. hæða háhýsi í fullum slökkviliðsgalla ásamt reykköfunartækjum. 

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af okkar keppanda og heimsleikunum í LA.