Héraðsdómur Suðurlands
Héraðsdómur Suðurlands
1 af 2
Brunavarnir Árnessýslu sýknað af milljón króna kröfu SUT ehf.

S.l. mánudag kl. 13.15 var kveðin upp dómur í Héraðsdómi Suðurland þess efnis að BÁ væru sýknað af kæru SUT fyrirtækisins á Selfossi vegna kröfu um leigugjald fyrir slökkvibifreið.
Málavextir voru þeir að sumarið 2007 bauð Sigurður Þór Ástráðsson, þáverandi framkvæmdastjóri SUT fyrirtækisins slökkviliðsstjóra að slökkvibíll sem fyrirtækið var með í sölu yrði staðsettur á slökkvistöðinni, ótilgreindan tíma, á meðan beðið var eftir nýjum slökkvibíl til BÁ frá Póllandi. Gamall slökkvibíll hafði bilað og var slökkviliðsstjóri með lánsbíl í hendi þegar boðið kom frá Sigurði. Engin leigusamningur var gerður og Sigurður Þór Ástráðsson tjáð að ekki yrði greitt fyrir stöðu bílsins. Sigurður taldi það ávinning fyrir fyrirtæki sitt að bíllinn stæði á slökkvistöðinni á meðan söluferlið stæði yfir. Slökkviliðsstjóri áleit að um greiða við Sigurð væri að ræða enda var hann varavarðstjóri slökkviliðsins um þessar mundir.
Slökkviliðsmenn fengu að kynna sér kosti bílsins á meðan hann var staðsettur hjá BÁ undir eftirliti Sigurðar.
S.l. haust (2010) gerðu núverandi eigendur SUT ehf. tæplega milljón kr. kröfu á BÁ um leigu fyrir bílinn þá 102 daga sem hann var á slökkvistöðinni á Selfossi. BÁ urðu ekki við þeirri kröfu og var því höfðað mál á hendur BÁ sem tekið var til dóms nú í desember og dæmt í málinu s.l. mánudag.

Niðurstöðuorð dómsins eru á þessa leið:
(Dómurinn í heild sinni er hér að neðan)

 

„Telja verður að stefnanda hafi ekki tekist sönnun á því að bindandi leigusamningur hafi komist á milli aðila og ekki hafa verið hrakin þau ummæli stefnda að það hafi raunar verið stefnanda í hag að bíllinn hafi verið í umsjá stefnda. Þar sem stefnanda hefur ekki tekist sönnun á greiðsluskyldu stefnda verður ekki fallist á kröfur hans.
Samkvæmt framansögðu er stefndi sýkn af öllum kröfum stefnanda.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda 350.000 krónur í málskostnað.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp þennan dóm.

D ó m s o r ð :

Stefndi, Brunavarnir Árnessýslu, er sýkn af kröfum stefnanda, SUT ehf/Scanfire.
Stefnandi greiði stefnda 350.000 krónur í málskostnað.

Hjörtur O. Aðalsteinsson."
-----------------------------------------------------------------------

 

D Ó M U R
20. desember 2010

Mál nr. E-371/2010:
Stefnandi: SUT ehf
(Grímur Hergeirsson hdl.)
Stefndi: Brunavarnir Árnessýslu
(Sigurður Sigurjónsson hrl./Suðurlandi)
Dómari: Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri.

 

Ár 2010, mánudaginn 20. desember, er á dóm¬þingi Héraðs¬dóms Suður¬lands í málinu nr. E-371/2010:

SUT ehf/Scanfire (Grímur Hergeirsson hdl.)
Gegn Brunavörnum Árnessýslu (Sigurður Sigurjónsson hrl.)
kveðinn upp svofelldur

dómur:

Mál þetta, sem var þingfest 16. júní 2010 og dómtekið 22. nóvember 2010, er höfðað með stefnu birtri þann 2. júní 2010 af SUT ehf/Scanfire, kt. 700503-4450, Fossnesi A, Selfossi gegn Brunavörnum Árnessýslu, kt. 470775-0419, Austurvegi 52, Selfossi, fyrirsvarsmaður Kristján Einarsson, kt. 150749-4849, Hraunprýði, 801 Selfossi.
Stefnandi krefst þess að stefndi greiði stefnanda skuld að fjárhæð 963.900 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 20. september 2007 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefnufjárhæð verði lækkuð verulega. Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu, samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.

Málavextir.

Í stefnu lýsir stefnandi atvikum málsins svo að sumarið 2007 hafi Brunavarnir Árnessýslu farið þess á leit við stefnanda að fá til afnota slökkvibifreið sem sé í eigu félagsins. Bifreiðin hafi verið afhent stefnda þann 10. júní ásamt slökkvi- og ljósabúnaði en annan búnað hafi stefndi lagt til. Leiguverðið skyldi vera 9.450 krónur pr. dag og leigutíminn frá 10. júní 2007 til 20. september 2007 eða 102 dagar. Leigugjaldið sé því 963.900 krónur sem sé stefnufjárhæð málsins. Stefnandi kveður skuldina ekki hafa fengist greidda þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.
Í greinagerð stefnda er lýsing málavaxta að nokkru frábrugðin lýsingu stefnanda og lýsir stefndi málavöxtum svo að sumarið 2007 hafi stefnda vantað tímabundið slökkvibifreið í bílaflota sinn. Slökkviliðsstjóri hafi því leitað til nokkurra aðila, svo sem annarra slökkviliða. Hafi hann fengið jákvætt svar frá tveimur aðilum og hafi bíll frá slökkviliði Keflavíkurflugvallar orðið fyrir valinu og til hafi staðið að senda menn eftir bílnum. Fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnanda, Sigurður Þór Ástráðsson, hafi þá leitað til slökkviliðsstjóra stefnda og boðið honum afnot af slökkvibifreiðinni JL-169. Slökkviliðsstjóri hafi tjáð þáverandi framkvæmdastjóra stefnanda að stefndi gæti fengið bifreið frá öðru slökkviliði og taldi því ekki nauðsynlegt að þiggja boðið. Framkvæmdastjórinn þáverandi hafi hins vegar talið það til hagsbóta fyrir stefnanda að umrædd bifreið yrði hjá stefnda þar sem það væri auðveldara að auglýsa bifreiðina til sölu ef hún væri í notkun á slökkvistöð. Slökkviliðsstjóri hafi þá samþykkt að bifreiðin fengi að standa í húsakynnum stefnda en hafi ítrekað við þáverandi framkvæmdastjóra stefnanda að stefnda stæði til boða afnot af slökkvibifreið frá öðrum slökkviliðum án kostnaðar þannig að ekki kæmi til greina að greiða neitt endurgjald vegna bifreiðarinnar. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við það af hálfu þáverandi framkvæmdastjóra enda hafi hann upplýst að hann gæti þurft að senda bifreiðina burt með 2 til 3 daga fyrirvara myndi hún seljast. Bifreiðin hafi verið staðsett hjá stefnda frá 10 júní 2007 til 20 september sama ár, eða þar til ný bifreið hefi verið tilbúin til notkunar hjá stefnda. Tveimur mánuðum eftir að bifreiðin hafði verið tekin úr vörslu stefnda hafi Sigurður Þór komið ásamt nýjum framkvæmdastjóra félagsins á slökkvistöðina á Selfossi í þeim tilgangi að ræða hvort stefndi greiddi ekki leigukostnað vegna veru bílsins á slökkvistöðinni. Slökkviliðsstjóri hafi ítrekað fyrri orð sín og tjáð þeim hann hafi þegið boð stefnanda þar sem þáverandi framkvæmdastjóri hafi talið það stefnanda í hag. Þá ítrekaði slökkviliðsstjóri að það hafi verið alveg skýrt frá upphafi að ekki yrði um greiðslur að ræða vegna þessa. Þeir félagar hafi þá rætt kaup á bílnum og hafi slökkvistjóri viljað kanna það ef bílinn reyndist vel í vinnu við sinuelda og hafi stefnandi ætlað að senda stefnda myndbönd sem sýndi bílinn við ýmis störf. Ekkert frekar hafi verið aðhafst og reikningar hafi ekki verið sendir vegna leigu bifreiðarinnar.
Þá kveður stefndi framkvæmdastjóraskipti hafa orðið hjá stefnanda og núverandi framkvæmastjóri, Arnlaugur Bergsson, hafi leitað til slökkviliðsstjóra og krafið stefnda um 963.900 krónur vegna leigu á bifreiðinni. Framkvæmdastjórinn hafi borið fyrir sig óundirritaðan leigusamning um bifreiðina sem slökkviliðsstjóri hafi ekki séð fyrr.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Í stefnu málsins er ekki vikið að málsástæðum sérstaklega að öðru leyti en því að stefnandi kveður skuld vegna leigu umræddrar bifreiðar ekki hafa fengist greidda og sé honum því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.
Kröfu sína um greiðslu leiguverðs styður stefnandi við meginreglur kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, sbr. m.a. lög nr. 50/2000. Um gjalddaga kröfunnar er einnig vísað til laga nr. 50/2000. Kröfu sína um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála og varðandi varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Kröfu sínu um sýknu byggir stefndi einkum á því að samningur hafi ekki komst á milli aðila um greiðslu þeirrar leigu sem stefndi er krafinn um. Þvert á móti hafi komið fram í samskiptum aðila að ekki kæmi til greina að kostnaður hlytist af því að bifreiðin yrði staðsett í húsakynnum stefnda. Bindandi leigusamningur hafi ekki komist á og vísar stefndi í því sambandi til þess að leigusamningur sá er stefnandi hafi lagt fram og byggi á, sé óundirritaður og hafi ekki verið samþykktur af hálfu stefnda.
Varakröfu sína um lækkun stefnufjárhæðar byggir stefndi á því að fjárhæðin sé bersýnilega of há. Aðilar hafi ekki komið sér saman um greiðslu leigu vegna bifreiðarinnar og þyki stefnda umkrafin fjárhæð og há og í engu samræmi við það sem eðlilegt geti talist.
Stefndi vísar til almennra reglna samningaréttar og laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá vísar stefndi til almennra meginreglna kröfuréttar sem og til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Kröfu sína um málskostnað styður stefndi við ákvæði XXI. kafla, 129, 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða.

Í málinu krefst stefnandi greiðslu 963.900 króna vegna leigu á slökkvibifreið til stefnda á tímabilinu 10. júní 2007 til 20. september sama árs.
Samningur sá er stefnandi hefur lagt fram í málinu, og byggir kröfu sína á, er ódagsettur og ennfremur óundirritaður. Samningurinn gerir ráð fyrir undirritun slökkviliðsstjóra fyrir hönd stefnda og þáverandi framkvæmdastjóra, þ.e. Sigurði Þór Ástráðssyni, fyrir hönd stefnanda en ekki er gert ráð fyrir vottum.
Fyrirsvarsmaður stefnda kveðst ekki hafa séð umræddan samning fyrr en núverandi framkvæmdastjóri stefnanda krafði stefnda um greiðslu vegna leigu bifreiðarinnar. Í framlögðu bréfi framkvæmdastjóra stefnanda til ónafngreinds stjórnarmanns stefnda, dagsettu 23. apríl 2009, kemur fram að þann 17 apríl sama ár hafi bréfritari átt samtal við slökkviliðsstjóra þar sem krafist var greiðslu fyrir leigu á hinni margnefndu slökkvibifreið. Þá kemur fram í bréfinu að slökkviliðsstjóri hafi lofað að leggja málið fyrir stjórn stefnda. Þá liggur fyrir í málinu fundargerð stjórnar stefnda frá 4. maí 2009 þar sem áðurnefnt bréf var rætt. Kemur þar fram að slökkviliðsstjóra hafi verið falið að skoða málið betur.
Fram kom fyrir dómi hjá fyrirsvarsmönnum aðila og vitnum að umrædd bifreið hefði verið í notkun hjá slökkviliðinu á umræddum tíma. Vitnið Sigurður Þór Ástráðsson, sem var framkvæmdastjóri stefnanda á þeim tíma sem bifreiðin var í notkun hjá stefnda, bar fyrir dómi að hann hafi átt frumkvæði að því að stefndi fékk bílinn til afnota og að á þeim tíma hafi hvorki verið rætt um leigutíma né leigugjald.
Telja verður að stefnanda hafi ekki tekist sönnun á því að bindandi leigusamningur hafi komist á milli aðila og ekki hafa verið hrakin þau ummæli stefnda að það hafi raunar verið stefnanda í hag að bíllinn hafi verið í umsjá stefnda. Þar sem stefnanda hefur ekki tekist sönnun á greiðsluskyldu stefnda verður ekki fallist á kröfur hans.
Samkvæmt framansögðu er stefndi sýkn af öllum kröfum stefnanda.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda 350.000 krónur í málskostnað.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp þennan dóm.

D ó m s o r ð :

Stefndi, Brunavarnir Árnessýslu, er sýkn af kröfum stefnanda, SUT ehf/Scanfire.
Stefnandi greiði stefnda 350.000 krónur í málskostnað.

Hjörtur O. Aðalsteinsson.