föstudagurinn 22. júlí 2011

Bruni í Eden í Hveragerði

Gríðarlegt tjón varð af brunanum í Eden í Hveragerði í nótt. Um miðnætti komu boð frá Neyðarlínunni (112) þess efnis að mikill eldur væri þegar í húsinu. Slökkviliðsmenn BÁ í Hveragerði komu nokkrum mínútum seinna á staðinn, þá þegar varð ljóst að erfitt myndi reynast að ráða niðurlögum eldsins. Þegar slökkviliðsmenn í Hveragerði voru búnir að tengja vatnsslöngur og stylla verkefninu upp komu slökkviliðsmenn BÁ frá Árborg og Þorlákshöfn á staðinn og saman réðust menn að eldinum.
Slökkviliðsmenn frá SHS voru fengnir til að vera í viðbragðsstöðu ef eldur myndi breiðast út. Ekki þurfti að kalla þá til.
Húsið er að nokkru leiti barn síns tíma, þ.e.a.s. á liðnum árum hefur verið bætt í það ýmsum byggingarefnum sem mörg hver eru eldfim í meira lagi. Þar má helst nefna ýmis plastefni sem voru í þaki. Líta má svo á að bundin olía hafi verið í þakinu þannig að þegar eldurinn í eldhúsinu (upptök eldsins) náði hámarkshita hafi farið af stað atburðarás sem þróaðist mjög hratt.
Eldurinn barst um allt húsið þar sem samverkandi þættir hjálpuðu til, plastefnin, gróður og skreytingar og svo þurt rik sem alltaf liggur á loftbitum og skotum á svona stórum stað.
Einnig var húsið ekki hólfað mjög mikið.
Slökkviliðsmenn stóðu sig vel við slökkvistarfið og lágmörkuðu mengun fljótt og vel.
Engan sakaði.
Ástæða eldsins eru ókunn ennþá en rannsókn beinist að eldhúsinu.

Myndir sem hér fylgja tóku varðstjórar BÁ þeir Þórir Tryggvason og Þorsteinn Hoffritz.
Einnig eru merkilegar myndir af brunanum teknar úr lofti á vef Morgunblaðsins, www.mbl.is