Myndir af vettvangi má skoða með því að smella hér
Ekkert eftir
Ekkert stendur eftir af af Hótel Valhöll eftir brunan í gær. Þakið á vestustu burstinn er sigið niður og logaði í húsinu framundir kvöld. Slökkviliðsmenn unnu frameftir nóttu við að slökkva glæður í rústunum. Vakt var við höfð á vettvangi framundir morgun. Ekki er hægt að reikna með að mikið heillegt sé eftir í húsinu.
Tilkynnt var um eldinn til Neyðarlínunnar 1-1-2 á fimmta tímanum í gær og var fyrsti dælubíll lagður af stað frá Selfossi örfáum mínútum síðar. Húsið var alelda þegar slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu og slökkviliði höfuðborgarsvæðisins komu að. Auk þess komu á vettvang slökkviliðsmenn frá Slökkviliði Hveragerðis. Þá komu þyrlur Landhelgisgæslunnar með slökkviliðsmenn og reykköfunarbúnað á vettvang. Slökkvilið Þorlákshafnar var fengið til aðstoðar og staðsettu slökkviliðsmenn þaðan sig á Selfossi ef ske kynni að annað útkall kæmi.
Bruninn vakti gríðarlega athygli og voru margir áhorfendur að fylgjast með bæði á jörðu og úr lofti. Slökkvilið beindi því til almennings að halda sig frá vegna reykjarkófsins sem liggur yfir og vegna sprengihættu. Þá var áhorfendum sem komið höfðu sér fyrri á barmi Almannagjár, vísað frá vegna reykjarkófs sem lá þar yfir. Þá var flugbann sett yfir Þingvelli á meðan á slökkvistarfi stóð. Ákveðið var að senda ekki reykkafara inn í húsið þar sem fullvíst var talið að allir hefðu komist út.
Rannsókn hafin
Rannsókn er hafin á upptökum brunans sem varð í gær í Hótel Valhöll á Þingvöllum. Lögreglan á Selfossi fer með rannsóknina og hafa skýrslur verið teknar af nokkrum starfsmönnum hótelsins. Lögregluvakt hefur verið á svæðinu og verður áfram í dag og á morgun.
Lögreglan á Selfossi beinir því til fólks sem fer til Þingvalla í dag og næstu daga að halda sig í hæfilegri fjarlægð frá brunarústunum, leggi það leið sína að þeim.
Hreinsunarstarf er hafið á brunastað en vettvangsrannsókn fer fram á mánudag. Rannsóknarlögreglumenn tæknideildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðir til aðstoðar og komu þeir á brunavettvang strax í gær. Þeir munu vinna við frekari vettvangsrannsókn á mánudag.
Lítið stendur eftir af hótelbyggingunni og er óvíst á þessari stundu hvort eða hvernig verður byggt upp á Valhallarreitnum. Sigurður K. Oddsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, sagðist í samtali við mbl.is telja best að tyrfa yfir reit Hótel Valhallar og ganga snyrtilega frá hið fyrsta.
Fyrir liggur að margir aðilar hafa orðið fyrir tjóni í brunanum og þá mest húseigandi og rekstraraðili. Starfsmenn og gestir misstu persónulega muni sína. Þá skemmdist búnaður á vegum fyrirtækjanna Símans og Mílu, sem var á og við hótelið, í brunanum.
Lögreglan á Selfossi og slökkvilið Brunavarna Árnessýslu vilja koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem lögðu lið við slökkvistarfið sem og fjölmiðlafólki sem sýndi mikla tillitsemi og aðgát á brunavettvangi.
Saga hótelsins löng
Sögu Hótels Valhallar má rekja til loka 19. aldar en húsið var fyrst reist á svonefndum Völlum nærri Köstulum. Veturinn 1928-1929 var húsið hlutað sundur og dregið á sleðum vestur yfir Öxará á núverandi stað. Í áranna rás var húsið aukið og endurbætt.
Ríkissjóður keypti Valhöll árið 2002 á 200 milljónir króna. Árið 2005 var gerður leigusamningur við núverandi rekstraraðila fyrir veitingarekstur og gistiþjónustu.
Fyrir réttum 39 árum, þann 10. júlí 1970, brann Konungshúsið svokallaða, sem byggt var á Efri-Völlum árið 1907 þegar von var á Friðriki konungi VIII í heimsókn til Íslands. Fram kemur á vef Þingvalla að fyrir hátíðarhöldin 1930 var húsið flutt og sett niður undir Hallinum sunnan við Valhöll. Það var sumardvalarstaður forsætisráðherra um árabil. Forsætisráðherrahjónin Bjarni Benediktsson og Sigríður Björnsdóttir létust í eldinum ásamt dóttursyni þeirra, Benedikt Vilmundarsyni. Á lóðinni stendur nú minnisvarði sem íslenska þjóðin reisti þeim.
Sami „krabbi" og lagði húsin við Lækjargötu og Austurstræti lagði Hótel Valhöll líka
Í gærkvöldi var sami krabbakraninn og var notaður til að rjúfa þekjuna á brunarústunum á horni Lækjargötu og Austurstrætis fenginn til að rífa það sem uppi stóð af Hótel Valhöll á Þingvöllum er eldurinn hafði verið slökktur.
Heimildir:
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/07/10/saga_hotels_valhallar_long/
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/07/11/hotel_valholl_jafnad_vid_jordu/
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/07/11/skyrslur_teknar_af_starfsfolki/
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/07/10/reykkafarar_komu_med_thyrlu_lhg/
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/07/10/litid_eftir_af_hotel_valholl/