Eldur kom upp í garðyrkjustöð í Hveragerði laust fyrir miðnætti síðastliðið laugardagskvöld. Eldurinn var staðbundin á rækturnarborði í einu af gróðurhúsum stöðvarinnar. Ræktunarborðin eru svokölluð flóð- og fjöru vökvunarborð sem gerð eru úr plastefnum. Svo virðist sem kviknaði hafi í einu borðinu út frá rafmagnsbúnaði með þeim afleiðingum að hluti af borðinu brann og húsið fylltist af reyk. 

Er slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu komu á vettvang var Lögreglumaður (sem reyndar er líka slökkviliðsmaður hjá BÁ í hlutastarfi), búin að slökkva eldinn með slökkvitæki úr lögreglubílnum. Slökkviliðsmenn BÁ reykræstu síðan gróðurhúsið og efhentu lögreglu formlega vettvanginn til rannsóknar. 

Ekki er vitað á þessari stundu hversu mikið tjón hlaust af eldinum en ljóst er að allnokkuð ræktunartjón hefur orðið þar sem framleiðsla á matvöru fer fram í húsinu.