Pétur Pétursson mánudagurinn 8. júní 2015

Eldur á Geymslusvæði Set á Selfossi 7.6.2015

Gríðarlegur eldur kom upp á Geymslusvæði Set á Selfossi klukkan 18:33 sunnudaginn 7 júní 2015.


Verksmiðjan Set sérhæfir sig í framleiðslu plaströra og krefst starfsemi af þessu tagi mikils pláss til þess að lagera framleiðsluvörur.

Svæðið sem um ræðir er eitt af lagersvæðum fyrirtækisins þar sem plast og stálrör af ýmsum toga eru geymd.

Upptök eldsins eru kunn og hlutust þau af fikti ungra drengja með eldfæri. Brunavarnir Árnessýslu höfðu brugðist við öðru útkalla um það bil klukkutíma áður á svipaðar slóðir en þar höfðu sömu aðilar kveikt eld. Sá eldur var auðslökktur af vakthafandi varðstjóra liðsins.

 

Gríðarlegur eldur kviknaði í rörum Set þar sem auðbrennanleg plastefni brunnu með tilheyrandi eiturlosun út í andrúmsloftið.

Grípa þurfti til rýminga fólks úr nálægum íbúðarhúsum vegna hættu af reykeitrun. Fólk frá Árnesingadeild RKÍ sá til þess að fjöldahjálparstöð var opnuð í Vallarskóla þar sem fólk gat leitað skjóls. Björgunarsveitir frá Árborg, Hveragerði, Eyrarbakka og Þorlákshöfn sáu um rýmingar undir stjórn Lögreglu og Svæðisstjórnar á svæði 3. Um 45 björgunarsveitarmenn tóku þátt í aðgerðunum.

 

Slökkviliðseiningar frá starfstöðvum BÁ, á Selfossi, Hveragerði, Þorlákshöfn og Árnesi  voru kallaðar til vegna eldsins. Einnig var kallað eftir aðstoð frá Slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins en þeirra aðstoð var afturkölluð skömmu síðar þegar ljóst var slökkviliðmenn BÁ höfðu náð tökum á eldinum. Um 50 slökkviliðsmenn frá BÁ komu að vinnu við þennan vettvang.

 

Í upphafi einbeittu slökkviliðsmenn sér að því að kæla nærliggjandi byggingar og plaströr sem ekki voru nú þegar að brenna með vatni. Ljóst var í upphafði að þessi heldur yrði ekki auðunnin nema með notkunar froðu sem slökkvimiðils. Þegar að nægar froðubyrgðir voru komnar á vettvang var ráðist að eldinum og gekk slökkvistarf nokkuð hratt og örugglega þegar sú vinna fór af stað.

 

Það má teljast mikið afrek að slökkviliðsmönnum skyldi takast að verja húseignina við gagnheið 5 en mikinn reyk og geislunarvarma lagði að henni. Það er óhætt að segja að þar var miljónatjóni forðað.

 

Engu að síður var tjón í þessum bruna mikið. Vörur frá Set fyrir miljónir króna eyðilögðust og ljóst er að Brunavarnir Árnessýslu bera af þessu útkalli mikinn kostnað. Mikið magn froðu var notað við slökkvistarfið og ljóst er að kostnaður við froðunotkunina einn og sér hleypur á hundruðum þúsunda. Skemmdir á slöngum og öðrum búnaði BÁ var nokkur auk þess sem mannalaun við verkefni af þessari stærðargráðu eru umtalsverð.

 

Stjórnendum Brunavarna Árnessýslu er þó efst í huga um þessar mundir að ekki skildi fara ver og að engin slys urðu á fólki. Það er svo sannarlega ekki sjálfgefið í verkefni af þessari stærðargráðu.

 

Samstarf milli allra aðila voru til fyrirmyndar í þessu verkefni. Íbúar Árnessýslu mega vera stoltir af þeirri björgunargetu sem í sýslunni býr. Saman getum við svo sannarlega unnið stórvirki.