miðvikudagurinn 17. ágúst 2011

Eldur á brún Ingólfsfjalls.

Eldur á brún Ingólfsfjalls.
Í gær komu boð þess efnis að eldur væri laus í mosa á brún Ingólfsfjalls (550 m fjall norðan við bæinn Selfoss) Göngumaður tilkynnti eldinn til Neyðarlínunnar.
Í fyrstu var ekki vitað um umfang eldsins né útbreiðslu. Mosaþembur eru víða á toppi fjallsins.
Reykur sást en ekki mikill.

Kallað var út eftir vöskum göngumönnum úr röðum slökkviliðsins og fjórir kappar fóru upp, algallaðir og með klöppur að vopni.
Á meðan á göngunni stóð var haft samband við Landhelgisgæsluna og þeir beðnir að vera viðbúnir að koma á þyrlu gæslunnar með vatnsfötuna með sér.
Þetta var gert ef umfang eldsins væri meiri en slökkviliðsmenn réðu við með klöppum, en önnur tæki var ekki mögulegt að komast með að eldinum.
Þegar slökkviliðsmenn komust upp á topp fjallsins kom í ljós að um var að ræða eld í 40-50 m2 svæði sem þeir náðu að slökkva í á skömmum tíma.
Útkall sem þetta er eitt af þeim óvenjulegu, a.m.k. staðsetning eldsins.
Þau tæki sem slökkviliðið hefði þurft að hafa við þessar aðstæður eru kraftmikið sex-hjól , útbúið með vatnstank og dælu. Þannig hjól kæmi sér einnig vel ef fást þarf við skógar- og kjarrelda á upphafsstigi.
Myndir: (Teknar á farsíma) Steindór Guðmundsson, slökkviliðsmaður