miðvikudagurinn 17. janúar 2018

Eldur í Hellisheiðarvirkjun 12.janúar 2018

Föstudaginn 12.janúar kl. 11:26 barst Hveragerðiseiningu hjá Brunavörnum Árnessýslu boð frá Neyðarlínu um eld í Hellisheiðarvirkjun. Strax var ljóst að stórt verkefni var fyrir höndum og var þá Þorlákshafnareining og Selfosseining einnig boðaðar út, ásamt Sjúkraflutningum á Suðurlandi og Slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins. Árnessýsla er stór og því er ekki hægt að kalla allar stöðvar í eitt útkall. Þess vegna voru slökkvistöðvarnar á Laugarvatni, Reykholti, Flúðum og Árnesi á bið þó kallað hafi verið í mannskap þaðan.

Eldurinn kom upp í loftræstirými virkjunarinnar og var töluverður reykur og eldur upp úr þaki þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang. Fljótlega voru reykkafarateymi tilbúin til atlögu og nálguðust eldinn úr tveimur áttum ásamt því að slökkviliðsmenn fóru upp á þak í körfubílum slökkviliðanna til að rjúfa þakið og hleypa reyk og hita út.

Þrátt fyrir að vettvangur hafi ekki litið vel út í byrjun og allir aðilar vitað að mikið lægi undir að slökkva eldinn áður en hann hefði varanleg áhrif á starfsemi virkjunarinnar gekk vel að ná tökum á eldinum sem breiddist þó út í þakklæðningu og -einangrun. Um leið og talið var öruggt var farið í verðmætabjörgun, það er að verja tölvubúnað, golf og starfsemina fyrir vatns og reykskemmdum.

Um klukkan 14 var búið að ná tökum á eldinum og fóru þá slökkviliðsmenn frá SHS að flytja búnað og mannaskap til Reykjavíkur. Eldurinn blossaði þó upp aftur kl. 16.40 og tókst slökkviliðsmönnum frá BÁ að ráða niðurlögum hans. Vegna mikils hita í veggjum er ekki óeðlilegt að eldur blossi upp aftur þrátt fyrir að búið sé að ná tökum á vettvangi. Brunavarnir Árnessýslu með vakt á staðnum alla nóttina til að fylgjast með rýminu sem kveiknaði í með hitamyndavélum og rífa klæðningu niður þar sem hiti gæti hugsanlega leynst.

Fyrstu slökkviliðsmenn frá BÁ luku störfum um klukkan 17. Um kvöldmatarleytið fór svo meginhluti slökkviliðsmanna heim og aðrir slökkviliðsmenn komu á staðinn til að vakta um kvöldið og nóttina. Slökkviliðsmenn voru á vaktinni fram að hádegi á laugardeginum en þá var lögreglu afhentur vettvangurinn til rannsóknar.

Fjöldi slökkviliðsmanna frá öllum stöðvum Brunavarna Árnessýslu tóku þátt í slökkvistarfi, flestir
frá Þorlákshöfn, Hveragerði og Selfossi. Þegar mest var voru um 80 slökkviliðsmenn á vettvangi frá Brunavörnum Árnessýslu og Slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins. Á vettvang komu 12 tæki frá Brunavörnum Árnessýslu auk þess sem nokkrir slökkviliðsmenn komu á staðinn á eigin bíl. Vinnustundir BÁ manna voru samtals 407 á meðan á aðgerðum stóð en töluverð eftirvinna er eftir svona stórt verkefni í frágangi, yfirferð og viðgerð á búnaði og tækjum.

Það er alveg ljóst að þær æfingar sem Brunavarnir Árnessýslu og Orka náttúru halda fjórum sinnum á ári skiluðu sér á vettvangi bæði hvað varðar mannvirkið sjálft og starfsfólk virkjunarinnar. Samstarf tveggja stórra slökkviliða, Brunavarna Árnessýslu og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, gekk ótrúlega vel og unnu liðin saman sem ein heild og viljum við þakka SHS sérstaklega fyrir samstarfið. Aðrir aðilar sem komu á vettvang, þ.e. Sjúkraflutningar á Suðurlandi, Lögreglan á Suðurlandi og Landsbjörg, fá einnig þakkir fyrir vel unnin störf og hnökralaust samstarf.

Stjórnendur Brunavarna Árnessýslu eru mjög ánægðir hvernig til tókst í þessu stóra verkefni. Það má best sjá á því að ekkert tjón var á aflgjöfum virkjunarinnar og virkjunin skilaði fullum afköstum innan sólarhrings frá því að eldurinn kom upp. Því má einnig þakka öflugum brunahólfunum í virkjuninni sjálfri.