föstudagurinn 16. janúar 2009

Eldur í Reykjavík

Frá brunastað í morgun
Frá brunastað í morgun
Þessa frétt tókum við af Vísi .is.

Vísir, 16. jan. 2009 13:43

Setti klút fyrir andlitið og óð inn í logandi húsið

Frá brunanum í morgun MYND/NORDICPHOTOS/ÞORGEIR

Breki Logason skrifar:

Arnar Halldórsson var að koma úr partýi í miðbænum í nótt þegar hann sá logandi húsið við Klapparstíg 17. Hann heyrði öskur og læti rétt áður en hann setti klút fyrir andlit sitt og óð inn í húsið. Arnar aðstoðaði skelfingu lostið fólk við að komast út úr brenanndi íbúð rétt áður en slökkviliðið mætti á staðinn.

„Ég hugsaði ekki neitt," segir Arnar Halldórsson í samtali við Vísi um andartökin rétt áður en hann lét sig vaða inn í brennandi húsið.

„Húsið var logandi þegar við komum þarna að og ég bara fór inn. Fólkið var þá komið á lappir en var ennþá inni í íbúðinni. Ég sagði þeim að koma sér strax út en það vildi fara að taka með einhverja hluti. Mér tókst samt að koma þeim strax út," segir Arnar sem setti klút sem hann var með um hálsinn fyrir vit sér rétt áður en hann fór inn.

„Við heyrðum einhver öskur inni í húsinu þegar við vorum komin út en þorðum ekki að fara aftur inn í húsið. Þá var fólk úr húsinu við hliðina á komið út og það var svoldið panikk ástand," segir Arnar sem var sá eini úr hópnum sem fór inn.

Fljótlega eftir að út var komið kom lögreglumaður á vettvang og síðan slökkviliðið. „Síðan festust slökkviliðsmennirnir þarna uppi á svölum og við sáum einn þeirra hoppa niður," segir Arnar sem varð ekki meint af atvikinu.

„Ég fékk smá súrefni þarna hjá sjúkraliðunum en labbaði síðan bara heim."

Arnar segir að honum líði hálf skringilega og sé enn að jafna sig. Hann veit ekki hversvegna hann fór inn í logandi húsið en segir að kannski hafi spilað inn í að hann var að koma heim af djamminu og var búinn með nokkra bjóra. „Það rann samt mjög fljótt af mér."

Arnar segir mestu máli skipta að enginn hafi slasast í brunanum en alls voru níu manns í húsinu þegar kviknaði í.

Ekki liggur fyrir hvað olli brunanum og vinnur lögregla nú að rannsókn málsins.