Pétur Pétursson föstudagurinn 5. febrúar 2016

Eldur í Selfosskirkju 5. febrúar

1 af 4

Tilkynnt var um reyk í Selfosskirkju til Brunavarna Árnessýslu á ellefta tímanum í morgun. Er slökkviliðsmenn komu á vettvang var talsverður reykur í kirkjunni, það mikill að ekki sást til lofts í aðalrými kirkjunnar. Það tók reykkafara talsverðan tíma að finna eldsupptökin en þau voru á efrihæð byggingarinnar. Upptökin reyndust vera í nokkuð þröngum loftræstistokk er liggur milli þaks og aðalsalar kirkjunnar. Stokkurinn var einangraður með hvítu einangrunarplasti sem gefur frá sér eitraðar og eldfimar gastegundir við bruna. Stokkurinn var algjörlega mettaður af reyk en með hitamyndavél var hægt að staðsetja eldinn þar inni sem var allnokkur.

Eftir frumathugun er talið að upptök eldsins megi rekja til rafmagns en málið er í rannsókn.

Þegar eldsins varð vart stóð yfir kistulagning í kirkjunni og hafði atburðurinn því miður áhrif á athöfnina.

Það er alveg ljóst að þarna mátti ekki miklu muna að illa færi, þau efni sem þarna voru að brenna eru afar eldfim og gefa frá sér eitraðar lofttegundir. Hætta á útbreiðslu elds við aðstæður sem þessar er umtalsverð. Þökk sé tilkynnendum og slökkviliðsmönnum að ekki fór verr.