Eldur í veggklæðningu á Flúðum

 

Eldur kom upp í veggklæðningu byggingar á Flúðum sunnudaginn 31. maí síðastliðinn. Mikill viðbúnaður var hjá Brunavörnum Árnessýslu vegna málsins en þarna er um stóra byggingu að ræða. Voru slökkviliðseiningar frá Flúðum, Reykholti og Árnesi kallaðar til. Fljótlega tókst þó að ráða niðurlögum eldsins og var þar með hægt að afturkalla slökkviliðsmenn BÁ, frá Reykholti og Árnesi.

 

Málsatvik voru þau að starfsmaður var að eyða illgresi milli hellna með eldi frá gastækjum. Við verkið náðu logar að fara undir veggklæðninguna og kveikja þar í tjörupappa á bakvið. Aðstæður þarna voru allar hinar ákjósanlegustu fyrir eld að loga og ef ekki hefði verið fyrir snarræði starfsmanns og slökkviliðsmanna Brunavarna Árnessýslu á Flúðum hefði hæglega getað farið mun verr en fór.

 

Það er rétt að nota tækifærið hér og hvetja fólk til þess að sýna ýtrustu varkárni í meðferð elds við verk af þessu tagi.