Brunavörnum Árnessýslu barst tilkynning um mikinn eldi í húsnæði Plastiðjunnar á Selfossi klukkan 22:14 í gærkvöldi. Vitað var að þarna var um að ræða stórt iðnaðarhúsnæði sem hafði mikið af eldfimum efnum innandyra. Eftir að fyrstu menn komu á vettvang og ljóst var um stóreld var að ræða var viðbúnaður slökkviliðs aukin til muna. Kallaðar voru til starfseiningar BÁ frá Stokkseyri, Þorlákshöfn, Hveragerði, Reykholti og Árnesi auk Selfosseiningarinnar. Starfseiningum BÁ, á Laugarvatni og Flúðum var haldið eftir til þessa að geta svarað viðbragði á því svæði sýslunnar ef til útkalls kæmi í efribyggðum Árnessýslu.

Snemma í ferlinu var ljóst að illmögulegt væri að bjarga húsnæði Plastiðjunnar og var því höfuðáhersla lögð á að verja hús við Gagnheiði 19 en það hús var samtengt húsnæðinu sem var að brenna. Einnig var lögð áhersla á að verja hús númer 15 en það stendur mjög nærri vettvangnum.

Slökkviliðsmönnum tókst að verja húseignirnar við Gagnheiði 15 og 19 en húsnæði plastiðjunnar varð eldinum að bráð og gjöreyðilagðist.

Mikinn eitraðan reyk lagði frá brunastaðnum yfir nærliggjandi íbúabyggð sem var rýmd. Fólki sem þurfti að yfirgefa húsnæði sitt gat leitað á fjöldahjálparstöð í Vallarskóla.

Hátt í 200 manns tóku þátt í björgunaraðgerðum á einn eða annan hátt en meðal þeirra voru slökkviliðsmenn BÁ, Lögregla, Björgunarsveitir, Rauðikrossinn, Neyðarlínan, starfsmenn sveitarfélagsins Árborgar svo einhverjir séu nefndir.