Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Hveragerði voru kallaðir út rétt fyrir miðnætti föstudaginn 26.júní vegna elds í Núpagryfjum.

Mikinn svartan reyk lagði frá gryfjunum. Varð það til þess að slökkviliðið var kallað út þar sem ekki var ljóst hvað væri að brenna.

Í ljós kom að þarna höfðu einhverjir lagt eld að vörubrettum og dekkjum. Þeir hinir sömu voru horfnir á braut þegar slökkvilið mætti á staðinn. Eldurinn var slökktur til þess að ekki kæmi til fleiri innhringinga til Neyðarlínu vegna málsins.

 

Það er rétt að taka það fram hér að ruslabrennur sem þessar eru með öllu óheimilar og ber að farga efni sem þessu á viðeigandi hátt.

 

Leyfi vegna Tækifærisbrenna (lítinn varðenld), í Árnessýslu ber hinsvegar að sækja um til Lögreglustjórans á Suðurlandi og er það auðsótt mál. Þar má hinsvegar einungis brenna timbur. Fyllta þarf út umsóknarform og senda til lögreglu sem gefur síðan út leyfið eftir umsögn slökkviliðs. Þetta kostar ekki neitt.

 

Óleyfisbrennur geta valdið miklu álagi á það viðbragðskerfi sem við höfum. Fjölmörg símtöl berast yfirleitt til Neyðarlínunnar vegna þeirra og viðbragðsaðilar eru þá oft og iðulega sendir út sem getur valdið töf á viðbragði þeirra ef þörf er á þeim í raunverulega neyð.