Kl. 13.17 s.l. föstudag kom upp eldur í spónakerfi í Trésmiðju Selós á Selfossi.
Slökkvilið BÁ fór á staðinn og kom í veg fyrir milljóna tjón.
Ástæða þess að eldur hljóp í kerfið mun hafa verið út frá límkúlu sem myndaðist er verið var að saga fyrir falsi í krossviðsplötu.
"Ég sá að það myndaðist kúla sem skaust logandi inn í sogkerfið. Fljótlega urðu sogrörin svört að utan þannig að ljóst var að eldur logaði þar inni. Við sprautuðum úr þremur 12. kg. slökkvitækjum inn í kerfið um leið og við hringdum í 112" sagði Baldur Guðmundsson, einn eigandi Selós.
"Sennilega hefur límið í plötunni rúllað svona upp þar sem við vorum líklega að saga í líminu milli timburlaga í plötunni" sagði Baldur.
Eldurinn barst út í spónakerfi sem stendur við gafl hússins. mikill eldur myndaðist þar þegar rykið tók að brenna.
Slökkviliðinu tókst fljótlega að ráða niðurlögum eldsins, bæði í rörunum innandyra og í kerfinu utandyra.