fimmtudagurinn 10. júní 2010

Eldur í trésmiðjunni Selós á Selfossi

Kl. 22.01 í kvöld, (9.6.2010) kom tilkynning frá Neyðarlínu og boðað út slökkviliðið þar sem eldur logaði í húsi trésmiðjunnar Selós á Selfossi.
Fimm mín. seinna  voru fyrstu slökkviliðsmennirnir mættir á staðinn og hófu slökkvistörf.
Um mikinn reyk var að ræða í húsinu og töluverðan hita, ljóst að eldur hafði kraumað nokkuð lengi. Rúður voru svartar og farnar að springa, a.m.k. innra glerið.
Eldurinn virtist  eiga upptök á  miðri hlið húsins, nálægt lökkunarsvæði verkstæðisins. Húsið er stórt iðnaðarhús byggt á árunum í kringum 1975-80, steynsteyptar súlur með stál- og timbur þaki.  
Starfsmenn eru 13-15 og vinna aðallega að innréttingasmíði.
Fyrirtækið er eitt það öflugasta í landinu á þessu sviði.


Samhliða útkallinu á Selfossliðið  voru slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu í Þorlákshöfn kallaðir út.
Sömu leiðis slökkvilið Hveragerðis, en gagnkvæmur samningur er við þá um aðstoð í meiriháttar viðburðum.
Fljótlega dreyf að fjöldi slökkviliðsmanna og tæki. Um 40 slökkviliðsmenn tóku þátt í slökkvistarfinu og höfðu þeir til umráð fimm dælubíla, þrjá tankbíla og einn körfubíl. 

Það tók u.þ.b. 60 mín að ráða niðurlögum eldsins en þá var ljóst að um mikið tjón var að ræða. Einn þriðji hluti þaksins er ónýtur, fyrir utan tæki og innréttingar sem án efa hafa orðið fyrir miklum skemmdum .
Eftir því sem næst verður komist þá voru fjölmargar innréttingar tilbúnar til afhendingar í Grunnskólann á Stokkseyri. 
Allir slökkviliðsmenn stóðu sig með prýði og greiddu úr öllum vanamálum sem upp komu.

Í fyrstu virtist vera um vatnsskort að ræða þar sem borhola sem er nálægt brunastað gaf ekki það magn sem vænst var. Grunnvatnshæð á Selfossi  er með minnsta móti um þessar mundir og vatnsforði í aðal tanki bæjarins minni en í meðalári.
Tvær borholur eru á Selfossi sem ætlaðar voru til vatnstöku ef vatn þrýtur.

Vatnsveitukerfið gaf hinnsvegar alveg nægjanlegt vatn og því var farið á nærliggjandi brunahana sem stóð fyllilega undir vatnsþörf slökkiliðsins. Til að auka vatnsmagn inná brunahana á svæðinu skrúfuðu starfsmenn vatnsveitunnar fyrir vatn í neðri byggðir Árborgar.
S.s. ekki var um vatnsþurð að ræða þar sem stjórnanda dælumála tókst að miðla því vatni sem barst með snyld.

Slökkvistarfi lauk kl. 11.30, en vakt var og er við húsið til kl. 03.00 en þá tekur lögreglan við vaktstöðu.
Öllum sem komu að þessu starfi eru hér færðar bestu þakkir.
Við vonum síðan að skemmdir séu minni en sýnist en það á morgundagurinn eftir að leiða í ljós.

Myndir voru fengnar hjá Vísi og Mbl.