Litlu munaði að illa færi í Grímsnesinu um kaffileitið í gær þegar að eldur kviknaði í utanhúsklæðningu á einbýlishúsi.

Þetta atvikaðist þannig að blómapottur sem stóð upp við vegg utanhúss hafði verið notaður sem öskubakki. Ekki hafði drepist fyllilega í síðust sígarettu sem þar var sett og voru veðurfarsaðstæður þannig að í blómapottinum magnaðist upp eldur sem læsti sig í klæðningu hússins en utaná húsinu er standandi timburklæðning.

Til allrar lukku varð nágranni var við eldinn og náði að slökkva með slökkvitæki meðan að eldurinn var enn á upphafsstigi.

 

Talsvert lið frá Brunavörnum Árnessýslu var boðað út vegna málsins en slökkvibílar og slökkviliðsmenn liðsins voru hinsvegar afturkallaðir þegar ljóst var að búið væri að slökkva.

Engu að síður fór starfsmaður slökkviliðsins á staðinn með hitamyndavél og gekk úr skugga um að ekki leyndist glóð undir veggjaklæðningunni.

 

Þarna skall hurð nærri hælum! Um þessar mundir er mjög þurrt í sýslunni okkar og því mikilvægt að við sem hér búum og okkar gestir sýnum mikla aðgát í meðförum elds utanhúss.