sunnudagurinn 23. nóvember 2008

Erfitt að skipta um rafhlöðu í reykskynjara !

Trappa iðnaðarmannsins
Trappa iðnaðarmannsins
 Í gær hringdi eldri maður, búsettur á Selfossi, á slökkvistöðina og spurði hvort mögulegt væri að slökkviliðið gæti komið og skipt um rafhlöðu í reykskynjara sem væri farinn að "pípa".

Skynjarinn væri í stofunni og heldur hátt að ná til hans, rúmir fimm metrar.

Maðurinn sagði að hann hefði skipt síðast um rafhlöðu með því að stilla borðstofuborðinu undir skynjaranum og síðan áltröppu upp á borðið. "Með þessu móti rétt náði ég til skynjarans" sagði þessi eigandi íbúðar í raðhúsi.

Honum var tjáð að slökkviliðið væri yfirleitt ekki í svona vinnu en  athugað yrði hvað liðið gæti gert.  Einn liðsmaður fór á staðinn með "stóru" áltröppuna. Hún náði ekki svo öruggt gæti talist nema með því að þvinga utaná hana bráðabyrgðahandriði.

Rafhlaðan fór í og skynjarinn hætti að pípa.

 

Hvað er til ráða svo auðvelda mætti svona mál.

 

Það getur reynst snúið að leysa svona mál í gömlum húsum en þó ekki útilokað.

Í nýjum húsum er þetta auðveldara. Hvers vegna ?

Í nýjum húsum eru sett ídráttarrör á milli rýma, milli allra herbergja, stofu, eldhús og bílskúr.

Best er að setja samtengda skynjara í öll rými. Í flestum tilfellum er um að ræða samtengda skynjara sem hafa rafhlöðu hver fyrir sig.     Þannig var það hjá okkar manni í raðhúsinu.


Leysa má það "vandamál" að skipta um rafhlöðu árlega með því að fjárfesta í samtengdum skynjurum sem nota 230-240 volta spennu. Til að geta notað þannig búnað er nauðsynlegt að eitt ídráttarrör sé leitt í raftöflu hússins.


Ef ekki er mögulegt að  nota háspennuskynjara er mögulegt að tala við rafvirkjann sinn og biðja hann að leysa þetta mál með því að setja upp spennubreyti (sem hefur hleðslurafhlöðu) sem tengdur er á milli skynjara.

Það er ekki útilokað að koma þessum búnaði fyrir í gömlum húsum, t.d. er auðvelt að eiga við þetta í timburhúsum og steinborinn góði getur án efa leyst málið í harðari húsum.


Þegar svona búnaður er kominn upp, þá þarf aldrei að klifra upp á borðstofuborðið og þaðan í tröppu upp að skynjaranum til að skipta um rafhlöðu og til að kóróna "glæpinn" á nærbuxunum þar sem þessir árans skynjarar byrja yfirleitt að "pípa" um miðjar nætur.

Nánar um skynjara og önnur forvarnartæki er að finna hér á síðunni okkar til hægri, "FORVARNIR" og klikka á "ALMENNAR FOVARNIR"