Allt tiltækt lið slökkviliðs Brunavarna Árnessýslu var kallað út um klukkan 15:30 í dag. Tilkynnt hafði verið um lausan eld í íbúðarhúsi við Austurbyggð í Laugarási. Sendir voru af stað dælubílar frá Selfossi og frá Reykholti en fljótlega var ljóst að ekki var um mikinn eld að ræða og því var dælubíl frá Laugarvatni og tankbíl frá Selfossi snúið við.
Er slökkvilið kom á vettvang hafði eldurinn verið slökktur af húsráðendum og þar sem eldurinn hafði komið upp í garðskála þurfti ekki að reykræsta. Talsverðar skemmdir urðu vegna elds og reyks en eldurinn kom upp í garðskálanum sem er áfastur steinsteyptu tvílyftu einbýlishúsi. Engan sakaði í eldinum. Ljóst er að húsráðendur sýndu mikið snarræði eftir að eldurinn kom upp, því litlu mátti muna að illa færi. Eldsupptök eru ókunn.
Töluverður erill hefur verið hjá slökkvilið Brunavarna Árnessýslu um helgina. Í gær kviknaði í gróðri nálægt Kárastöðum í Þingvallasveit. Fóru slökkvilismenn á vettvang og slökktu í, en talsverður viðbúnaður var vegna þessa hjá slökkviliðinu.
Í nótt var svo slökkviliðið sent að Efstadalsskógi eftir að tilkynnt hafði verið um að menn hefðu misst stjórn á varðeld sem þar logaði. Dælubílar frá Reykholti og frá Laugarvatni voru sendir á staðinn, en fljótlega kom þó í ljós að um minnitháttar eld var að ræða og því var dælubíl frá Reykholti snúið við.