Unna Björg Ögmundsdóttir fimmtudagurinn 15. mars 2012

F1 Eldur í SET

Kl. 12:48 í gær, 14. mars, barst boð frá 112 til slökkviliðsins um að eldur væri í SET á Selfossi. Eldur í SET hefur verið ein stærsta brunaógnin á Selfossi lengi vegna staðsetningu fyrirtækisins og hráefnisins sem unnið er með.

 

Slökkviliðsmenn á Selfossi voru fljótir á vettvang og varðstjóri tók ákvörðun í sambandi við Neyðarlínu að kalla strax út liðsauka frá Hveragerði og Þorlákshöfn. Þar fyrir utan var haft samband við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sem bauð fram aðstoð og sendu 12 menn á þremur bílum. Einnig kom vatnsbíll frá Brunavörnum Rangárvallasýslu ásamt tveimur mönnum.
Þar sem allt viðbragðslið var á vettvangi var haft samband við varðstjóra á Laugarvatni sem kom á Selfoss ásamt tveimur mönnum og voru þeir tilbúnir ef annað útkall kæmi til, s.s. klippuslys. Þá var varðstjóra í Reykholti gert viðvart og látinn vita af að Bláskógabyggðin væri þeirra.
Slökkviliðisstjórinn á Flúðum hafði samband og bauð fram mannskap en ekki reyndist þörf á að þiggja þá aðstoð. Auk þess höfðu fyrrum slökkviliðsmenn BÁ samband og buðu fram aðstoð sína sem ekki þótti þörf á að þiggja að svo stöddu.

Á vettvangi frá Brunavörnum Árnessýslu voru 40 slökkviliðsmenn að störfum frá þremur stöðvum auk þess sem mennirnir frá Laugarvatni aðstoðuðu starfsfólk á slökkvistöð við samlokugerð og fleira tilfallandi.

 

Stórt verkefni sem þetta er samvinnuverkefni allra aðila sem að koma og má með sanni segja að allir hafi gert sitt besta til að leysa verkefnið. Tjón varð mikið en mikil mildi að ekki fór verr en ekki urðu slys á fólki utan eins slökkviliðsmanns sem meiddist á hendi, en meiðsli hans eru sem betur fer ekki alvarleg.

 

Brunavarnir Árnessýslu vilja þakka öllum þeim sem komu að starfinu með einum eða öðrum hætti fyrir störf sín.

 

Myndirnar sem fylgja eru fengnar að láni frá www.sunnlenska.is