miðvikudagurinn 13. desember 2017

Fræðsla í forgangsakstri

1 af 3

Forgangsakstur var tekin fyrir á æfingum desembermánaðar hjá Brunavörnum Árnessýslu. Norðmenn hafa í nokkur á verið með forgangsakstursnámskeið fyrir viðbragðsaðila sem tekur tvær vikur og endar með verklegu prófi hjá prófdómara frá ríkinu.

Lögreglan á Íslandi hefur kennt eftir þessari aðferð í nokkur ár.

Forgangsakstur er ekki að kveikja á sírenum, bláum ljósum og keyra eins hratt og hægt er. Forgangsakstur gengur út á að koma viðbragðsaðilum fljótt og örugglega á staðinn og stýra umferðinni þannig að ökumenn forgangsaksturs tækja þurfi ekki að sveigja mikið eða að vera í miklum hraðabreytingum.
Aðferðin sem er kennd við Noreg gengur út á notkun sírena og til viðbótar bláu ljósunum að blikka kösturum framan á viðbragðsbílunum. Með því að blikka kösturunum taktfast þá hefur það sýnt sig að umferðin tekur fyrr eftir forgangsaksturs tækjum og við getum stýrt umferðinni betur.

Við fengum Björgvin Óla, sjúkraflutningamann hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, til að halda þessa fræðslu. Hafði hann sett saman mjög góðan fyrirlestur í samráði við Lögregluna á Suðurlandi og Brunavarnir Árnessýslu þar sem stuðst er við hina svokölluðu norsku-aðferð. Það var almenn ánægja með þessa fræðslu og fékk Björgvin Óli mikið hrós fyrir.

Lárus þjálfunarstjóri Brunavarna Árnessýslu fór svo yfir Tetra (talstöðvar) þar sem verið var að taka upp svokallað dulkóðað kerfi hjá lögreglu, sjúkraflutningum og slökkviliðum og samskipti í gegnum þær, talhópa o.fl.