föstudagurinn 9. ágúst 2013

Góði hirðirinn miðlar merkum hlutum.

Hér situr Þráinn Þorvaldsson við borð sem staðsett er nú í Héraðsskólanum á Laugarvatni. Viku fyrr gaf hann það í Góða hirðinn.
Hér situr Þráinn Þorvaldsson við borð sem staðsett er nú í Héraðsskólanum á Laugarvatni. Viku fyrr gaf hann það í Góða hirðinn.

Það er eitt og annað skemmtilegt sem kemur upp þegar við förum í eldvarnaeftirlitsferðir.

Um daginn skoðuðum við nýja hostelið  í Héraðsskólanum á Laugarvatni.

Við vorum nokkrir aðilar sem mættum, einn af oss var Þráinn Þorvaldsson, eftirlitsmaður með fasteignum ríkisins.

Hótelstjórinn bauð okkur að setjast niður í gamaldags setustofu þar sem húsgögnin eru öll af eldri gerðinni. Mjög skemmtileg setustofa.

„Setjumst hér niður við þetta flotta borð sem ég keypti á „slikk“ í Góða hirðinum fyrir viku síðan“ sagði hótelstjórinn.

„Já einmitt“ sagði Þráinn. „Ég fór með þetta borð í Góða hirðinn fyrir viku og gaf þeim þetta ef einhver gæti notað það,  mig óraði ekki fyrir því að það færi hingað. Gott að það kemur að notum“

Borðið keypti Þráinn og kona hans fyrir þrjátíu árum síðan og þá var það notað. Um er að ræða massíft eikarborð, bæsað í brúnum lit og lakkað.

„Það hefur margt verið skrafað við borðið góða og margar sögur orðið  til“ sagði Þráinn og ók sér í gamla stólnum í setustofu Héraðsskólans á Laugarvatni.