Eitt af verkefnum Brunavarna Árnessýslu er að sinna eldvarnaeftirliti í sýslunni. Stífur laga og reglugerðarammi er utanum þá starfsemi slökkviliðsins líkt og aðra starfsemi þess.

Eldvarnaeftirlitið hefur um árabil verið undirmannað og er enn. Nýr eldvarnaeftirlitsmaður var þó ráðinn í byrjun þessa árs til viðbótar við þá starfsemi sem þegar var og var það mikil lyftistöng fyrir starfsemina í heild.

Mikill árangur er strax farin að koma í ljós af eflingu eldvarnaeftirlitsins. Nú undanfarið hefur kastljós eftirlitsins beinst að einum af okkar helstu fjársjóðskistum en það eru skólar sýslunnar. Hvarvetna hefur eftirlitsmönnum verið vel tekið og mikill skilningur hefur verið á þeirra störfum.

Það er skemmst frá því að segja að eldvarnaeftirlitsmenn BÁ duttu skælbrosandi inn á slökkvistöðina um daginn eftir að þeir höfðu verið í eftirfylgni skoðunum í skólum þar sem þeir voru að fylgjast með gangi tímasetra verkáætlana vegna úrbóta brunamála. Allt virðist vera í fullum gangi í  öllum skólum og allir tilbúnir að leggjast á eitt um að öryggi barna okkar hér í sýslunni sé tryggt í hvívetna hvað brunavarnir varðar.