Brunavarnir Árnessýslu voru kallaðar út fyrir hádegi í dag vegna gróðurelda á Nesjavallaleið.
Ekki var um stórt svæði að ræða en eldurinn var í mosa. Eldur í mosa getur mallað í nokkurn tíma áður en hann tekur sig upp. Það getur því verið snúið að tryggja að ekki leynist glóð eða eldur í mosanum áður en vettvangur er yfirgefinn.
Það eru kjör aðstæður fyrir gróðurbruna í dag, gróður og jarðvegur er töluvert þurr og þarf því ekki mikið til að kveikja eld í honum. Glóð frá sígarettu getur verið nægjanleg til að kveikja eld og þegar að vindur er eins og hann hefur verið síðustu daga getur eldurinn breiðst hratt út.
Við viljum biðja ykkur um að fara varlega með eld og aðra hitagjafa nálægt gróðri. Hafið augun opin og bregðist við ef þið verðið elds vart.
Viljum að lokum einnig benda aftur á síðuna grodureldar.is þar sem hægt er að finna mikið af góðri fræðslu.