fimmtudagurinn 6. ágúst 2015

Gróðureldur á Hellisheiði. 5.8.2015

1 af 2

Í gær, kl. 14.31 kom tilkynning frá Neyðarlínunni að eldur logaði í gróðri á Hellisheiði.

Vegfarandi um svokallaða Þúsundvatnaleið  keyrði fram á eldinn og hringdi í 112.

Þessi vegfarandi var í hópi sem ferðuðust á fjórum stórum ferðabílum, þeir máttu ekki vera að því að stoppa og reyna að slökkva eldinn eða kanna umfang hans.

Tilkynningin um staðsetningu var því nokkuð óljós, Þúsundvatnaleið ? Ölkelduháls ? Milli hrauns og hlíða ? allt kom til greina.

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu í Hveragerði fóru af stað á  dælubíl, vatnsbíl og varðstjórabíl.

Illa gekk að finna eldinn og var flengst um heiðina á tækjunum.

Slökkviliðsstjóri hafði samband við flugturninn í Reykjavík til að kanna hvort einhver flugvél væri á sveimi við Hellisheiði, svo var ekki.

Það náðist aftur í innhringjanda og hann gaf upp betri staðsetningu og sagði að þyrla hefði verið að sveima yfir staðnum þegar hann keyrði framhjá staðnum.

Við athugun kom í ljós að þyrla frá Norðurflugi hefði verið á staðnum.

Flugstjóri þyrlunnar sagði að hann hefði verið á flugi með ferðamenn þegar hann sá reykinn sem var dekkri en gufustrókarnir á Heiðinni. Hann flaug yfir og sá þá ferðabílana og vissi þá að þeir myndu huga að þessum málum.

Á þessum tímapunkti sáu slökkviliðsmenn reykinn. Ekki var gerlegt að fara með þunga slökkvibíla á staðinn þannig að einn slökkviliðsmaður var fenginn frá Hveragerði með sinn fjallabíl og kerru frá slökkviliðinu með nauðsynlegum búnaði.

Fljótt gekk að slökkva eldinn sem kraumaði í mosaþembu. Það sem brann þarna var u.þ.b. 300 fermetrar.

Ekki er vitað um eldsupptök.

Mikill fjöldi ferðamanna er um þessar mundir um alla Hellisheiði með bakpoka og búnað til að hita sér til matar.

Starfi lauk kl. 18.00