Pétur Pétursson miðvikudagurinn 8. júní 2016

Gróðureldur á Þingvöllum 7.6.2016

1 af 3

Tilkynnt var um gróðureld á þremur stöðum á Þingvöllum klukkan rúmlega tíu í gærkvöldi. Eldarnir loguðu í sinu í og við Almannagjá. Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Laugarvatni fóru á vettvang og slökktu eldana með góðri aðstoð nokkurra vegfarenda og landvarða. Að sögn Bjarna Daníelssonar, varðstjóra BÁ sem stýrði aðgerðum á vettvangi var sú aðstoð ómetanleg og virkilega vel þeginn.

Áður en slökkviliðsmenn mættu á svæðið voru fjórir landverðir þjóðgarðarins með vasklegri framgöngu búnir að vinna á eldinum að miklu leiti með öllum tiltækum áhöldum sem þeir náðu til.

Það vildi svo til að eldurinn logaði í graslendi þar sem ekki var trjágróður og því varð ekki stórkostlegt tjón af eldinum. Erfitt var þó að athafna sig við slökkvistörfin þar sem klöngrast þurfti upp brekkur og kletta til þess að komast að eldinum.

Afar þurrt er um þessar mundir á Þingvöllum og íkveikihætta því mikil. Rétt er því að brýna það fyrir fólki sérstaklega að fara varlega með eld og fylgjast með náunga sínum í meðförum á eldi en talið er að þarna hafi verið um íkveikju að ræða. Þingvellir eru ein af helstu náttúruperlum okkar Íslendinga og því afar mikilvægt landsmenn hjálpist að við að tryggja öryggi hennar.

 

Á einni af meðfylgjandi myndum má sjá þrjár af hjálparhellum slökkviliðsmannanna en þau heita Berglind Eva Eiríksdóttir, Helaga Valtýsdóttir og Herluf Ingvar Clausen. Gunnar Rafnsson beitti sér einnig af hörku við slökkvistörfin en því miður er ekki til mynd af honum.

Brunavarnir Árnessýslu færa ykkur sínar bestu þakkir góða fólk!