1 af 3

Umtalsverður gufuleki varð í Skiljuvatnslokahúsi í Hellisheiðarvirkjun um klukkan hálf tólf í dag. Þarna hafði pakkning í krana á gufulögn gefið sig með þeim afleiðingum að sjóðandi heit gufa sprautaðist inn í rýmið. Tveir menn voru við vinnu í húsnæðinu þegar að atvikið varð en þeir komust út af sjálfsdáðum án nokkurra meiðsla. 

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu fóru á þak byggingarinnar með körfubíl til þess að opna fyrir lúgur svo hægt væri að hleypa mest allri gufunni út. Í framhaldi voru síðan reykkafarar sendir inn í rýmið til þess að loka fyrir kranann. Kraninn sem um ræðir er gríðar stór og tekur það bæði mikið afl og tíma að loka fyrir hann handvirkt. Það varð því slökkviliðsmönnunum mikið gleðiefni að komast að því að komin væri rafrænn búnaður í virkjunina sem reykkafarar gátu tekið með sér inn í rýmið og notað til þess að loka fyrir umræddan krana. 

Að vanda voru störf slökkviliðsmanna Brunavarna Árnessýslu á starfssvæði virkjunarinnar unnin í fullu samstarfi við starfsmenn Hellisheiðarvirkjunar og lauk störfum á vettvangi um klukkan hálf þrjú í dag.