fimmtudagurinn 7. janúar 2010

Harður árekstur tveggja bíla á Selfossi

1 af 4
Kl. 9.07. í morgun komu boð frá Neyðarlínunni um að umferðaslys hefði orðið á mótum Engjavegar og Eyrarvegar á Selfossi. Jeppi og lítill fólksbíll rákust á og varð mjög harður árekstur. Báðir bílarnir köstuðust langt frá hvor öðrum eftir áreksturinn.
Tvennt var í jeppanum, að öllum líkindum sakaði þá einstaklinga ekki. Tvær konur voru í fólksbílnum. Önnur komst út úr bílnum strax, en hin sat föst í bílnum.
Slökkviliðsmenn á þremur bílum mættu á staðinn með klippubúnað og klipptu bílinn þannig að mögulegt var að ná konunni út. Toppur bílsins var klipptur af og konan tekin upp úr bílnum.
Samkvæmt upplýsingum sem fengust virðist ekki um alvarlega áverka að ræða og vonandi ná konurnar sér að fullu.
Myndir á slysstað: Magnús Hlynur