Pétur Pétursson mánudagurinn 6. júlí 2015

Helgarvaktir Brunavarna Árnessýslu

Átta helgar á sumrin eru slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu á bakvöktum. Þetta er gert til þess að tryggja lágmarksmætingu í útköll og til þess að tryggja það að tæki liðsins skili sér á útkallsstað ef til útkalls kemur.

 

Misjafnt er eftir stöðvum hversu margir menn eru á vakt en það fer eftir legu stöðvanna og hversu margir menn eru í hverri slökkviliðseiningu fyrir sig. Ekki gengur að setja sömu mennina á vakt allt sumarið þar sem hið Íslenska sumar er ekki mikið lengra en þær átta vikur sem þessar helgarvaktir eru í kringum og menn þurfa svo sannarlega sitt frí til þess að hlaða batteríin.

 

Helgarvaktirnar hefjast á föstudagskvöldum með æfingu þeirra sem á vakt eru. Þessar æfingar felast í því að menn yfirfara tæki, tryggja virkni þeirra og tryggja kunnáttu sína á þeim. Einnig fara menn oft í það að athuga með virkni brunahana á starfssvæðinu, prófa klippubúnað og margt fleira.

Eftir æfinguna eru menn formlega komnir á bakvakt og þá ber þeim að dvelja innan ákveðins radíusar frá slökkvistöð fram á mánudags morgun.

 

Hér meðfylgjandi eru myndir frá helgarvaktaræfingu í Hveragerði fyrir bakvakt helgina 3. til 6. Júlí.

Myndirnar tók Lárus Guðmundsson, aðstoðarvarðstjóri BÁ í Hveragerði.