sunnudagurinn 4. apríl 2010

Hreyfingar á slökkviliðinu á páskum

Myndin tengist sinubruna við Hvaleyrarvatn. Svona getur farið ef illa tekst til....
Myndin tengist sinubruna við Hvaleyrarvatn. Svona getur farið ef illa tekst til....
Eitt og annað rak á okkar fjörur um páskana.
Kl. 03.30 aðfararnótt laugardags komu boð í GSM síma slökkviliðsstjóra  frá Neyðarlínu og öryggisfyrirtæki þess efnis að viðvörunarhljóð kæmi frá kerfi að Sólheimum í Grímsnesi. Skjótt var brugðist við og fundu starfsmenn á Sólheimum strax hvaðan boðin komu. Ekki reyndist um lausan eld að ræða og því ekki nauðinlegt að senda liðið á staðinn.
Kl. 21.01  á laugardagskvöldið komu boð frá Neyðarlínu  þar sem tilkynnt hafði verið um mikinn reyk við Selvík við Álftavatn.
Slökkviliðsmenn frá Selfossi fóru á staðinn. Reyndist reykurinn koma frá brennu við einn sumarbústaðinn. Þeir sem stóðu að brennunni höfðu undirbúið bálið nokkuð vel með því að bleyta næsta nágrenni.
Ekki var leyfi fyrir uppkveykjunni og  algerlega út í hött að tendra eld á svæði sem er nánast fullt af sinu og þurrum gróðri.
Slökkviliðsmenn slökktu í brennunni. 
Kl. 13.07 á páskadag komu boð frá Neyðarlínu  og tilkynnt um sinueld við Haukadal í Biskupstungum. Þar er eitt  af stærri skógræktarsvæðum landsins. Liðsmenn frá Reykholti fóru á staðinn á slökkvibíl og slökktu eldinn sem ekki reyndist vera mikill.
Þeir vöktuðu síðan svæðið.
Kl. 16.47 á  páskadag komu boð frá Neyðarlínu þess efnis að sina logaði við bæinn Hæl í Gnúpverjahreppi. Slökkviliðsmenn frá slökkvistöðinni í Árnesi fóru á staðinn og náðu fljótt tökum á ástandinu.

VONANDI ER MÁL AÐ LINNI ÞVÍ ÞAÐ Á AÐ RIGNA Á MORGUN !!