sunnudagurinn 31. maí 2009

Hugleiðing slökkviliðsmanns

 

 

 

 

Sælir félagar.

 

Hvar er jákvæðnin.

 

 

 

Ég er mikið búinn að hugleiða hvers vegna ástandið er eins og það er hjá okkur í Brunavörnum Árnessýslu. Ég hef ekki komist að niðurstöðu en margt hefur leitað á hugann.

 

Ég  ætla ekki að fara að rekja stóra símaburðarmálið lið fyrir lið.

Þar eru stjórn og slökkviliðsstjóri búin að játa sig sigraða og biðjast afsökunar.

Hvað viljum við meira ?

Á KE að hætta af því að hann vogaði sér að fara eftir því sem sem honum var ráðlagt að gera ?   

 

Þegar tveir deila er sökin sjaldnast bara hjá öðrum aðila eins og menn þekkja  úr daglega lífinu jafnvel úr hjónabandinu.

Er möguleiki á að við höfum verið full harðir í þessari deilu ?

Vinnuveitendum ber að greiða eftir kjarasamningum en þarna voru misjafnar túlkanir milli launagreiðanda og launþega sem eru  nú til lykta leiddar.

 

Það eru allir með á því að við erum í vinnu hjá sveitarfélögunum sem við vorum að krefja um þetta gjald með dráttarvöxtum.

Eiga sveitarfélögin að segja: duglegir strákar þið unnuð málið, við borgum og svo rekum við KE í kaupbæti, svona virðist krafan vera frá þeim sem sögðu upp.

 

Daglega er verið að reka mál fyrir héraðsdómi og hæstarétti þar sem er verið að takast á um túlkanir á lögum og  lagagreinum, svo endar með því að annarhvor vinnur og þá er málið búið nema þegar er hægt að áfrýja á hærra dómstig.

Menn eru kannski tilbúnir að fara með málið til Strassburg til að freista þess að losna við  KE. Hvað á maður að halda.

 

 

Ég vil hvetja menn til að skoða hver fyrir sig hvort þeir geti kannski gert eitthvað sjálfir til að bæta ástandið.

 

Er kannski búið að vera einelti í garð KE  síðan 1994 ?

Hefur KE kannski aldrei fengið tækifæri  hjá hluta liðsins ?

Er kannski alveg sama hvað KE segir og gerir, það er snúið út úr því og skilið á versta veg.

Það er nú ekki hægt að segja að KE sé gert auðvelt fyrir með stjórnun á þessu liði  með öllum þessum útúrsnúningum og neikvæðni.

Getum við kannski komið meira að þessu starfi sjálfir með jákvæðni og opnum hug í stað þess að bíða eftir því að fá allt uppí hendurnar og væla svo út í eitt ef eitthvað dregst eða er ekki alveg eins og við höfðum hugsað það.

 

Kristján Einarsson er ekki gallalaus frekar en við hin og kannski voru tilsvör  sem birtust í blöðunum óheppileg , en gæti ekki verið að sum svörin hafi verið slitin úr samhengi ? Eins og þegar hann sagði að það kæmi maður í manns stað, olli það því að einhver sagði upp störfum, ef þetta er rétt þá er nú orðið vandlifað, það er nefnilega einmitt þannig að það kemur maður í manns stað, það er enginn ómissandi hvorki ég né aðrir en ég tek það skýrt fram að það er ekki gott að menn með mikla reynslu hætti í svona liði sérstaklega ekki margir í einu.

 

Ég var nú ekkert sérlega ánægður með KE þegar ég sótti um starf varaslökkviliðsstjóra þar sem meirihluti stjórnar BÁ valdi mig í starfið en KE vildi frekar annan umsækjanda og tók fram fyrir hendur stjórnar.

KE hafði vald til að ráða þann sem hann vildi í það starf og gerði það. Ég íhugaði að hætta í liðinu en eftir umhugsun ákvað ég að gera það ekki, það er nefnilega ekki lausn að stökkva frá borði þó það hvessi aðeins.

Þegar valið á milli umsækjanda var í gangi  fór af stað undirskriftarlisti hjá þessum sömu mönnum og eru nú búnir að segja upp eða hluta þeirra, þar sem þeir hótuðu að segja upp ef þeirra maður yrði ekki ráðinn í starfið. Þannig að svona hótanir eru ekkert nýjar af nálinni á Selfossi.

Svona aðferðir eru mikið notaðar af yngir kynslóðinni t.d. "ef þú vilt ekki fara í byssó vil ég aldrei aftur leika við þig".

 

Ef menn vilja láta reka KE verður að vera ærin ástæða til þess. Það er ekki hægt að reka fólk úr vinnu bara af því að einhverjum hefur alltaf fundist það ómögulegt.

Mín reynsla af  KE  sem slökkviliðsstjóra er að mestu leyti góð og sé ég ekki fyrir hvaða afglöp ætti að reka hann úr starfi, ég hef reynslu af starfsmannahaldi og hef þurft að losa mig við starfsmenn  og veit því  nokkuð vel hvað þarf til að reka menn úr vinnu.

 

Er BÁ ekki bara nokkuð vel rekið byggðasamlag ? Tækjakosturinn er allavega með allra besta móti þó að körfubíllinn margumræddi standi í einhverjum.

Svo má alltaf deila um kostnaðarskiptinguna.

 

Það hefur verið kvartað yfir því að það vanti æfingar í gámum hjá SHS en þegar okkur er boðið uppá nota aðstöðuna mætum við ekki, getur það verið út af því að þegar við fórum síðast voru menn að sjá að þolið var ekki uppá marga fiska ?

Samt fá allir frítt í þrek og sund en það var nú eitt baráttumálið að fá það í gegn að BÁ borgaði kort í Styrk fyrir alla, svo er annað mál að mæta í þrekið og vera í standi. Hverjum eigum við að kenna um það ?

 

 

Við fengum vinaslökkvilið í heimsókn í sumar sem var hin besta skemmtun hjá þeim sem tóku þátt.

Já hjá þeim sem tóku þátt, þar hefðu fleiri mátt koma að til að gera heimsóknina skemmtilega fyrir þessa vini okkar sem hafa tekið á móti okkur eins og höfðingjum þegar við höfum farið til þeirra. Ég veit ekki hvað var í gangi hjá sl.mönnum en ótrúlega fáir sáu sér fært að leggja eitthvað af mörkum í þessa heimsókn en auðvitað eru aðstæður misjafnar en ég veit fyrir víst að það var einhver kergja í gangi þannig að jafnvel þeir sem voru búnir að ákveða að vera með hættu við á síðustu stundu.

Gestirnir okkar spurðu af hverju svona fáir úr liðinu kæmu að hitta þá. 

Okkur var öllum boðið að taka þátt í þessari móttöku með löngum fyrirvara, það eina sem við þurftum að gera var að sýna smá áhuga á verkefninu og auðvitað að reyna að hliðra til hjá okkur. En það var spurning um forgangsröðun, ég t.d. tók frí í vinnu til að vera með af því að mig langaði til þess að hitta þetta fólk og gera eitthvað skemmtilegt. Við konan mín áttum 10 ára brúðkaupsafmæli sem bar upp á þennan laugardag og við frestuðum "kósí" kveldinu þar til síðar.....

 

 

Svo er það Björgunarmiðstöðin eða ætti kannski að segja "Björgunarmistökin"

Hættum að velta okkur uppúr því: hvort eða hvenær við flytjum inn, hvernig húsið snýr, hvar það er, hvað það er stórt, hvernig er að keyra að og frá því og úr hvernig einingum það er byggt.

Það er stjórnar og slökkviliðsstjóra að hafa áhyggjur af þessu, ekki okkar.

 

Við verðum að slaka á og hætta að reka þetta í fjölmiðlum. Okkur langar öllum að gera þetta að atvinnuliði en til þess þarf að koma þeim sveitarfélögum sem standa utan BÁ inn í BÁ , það ýtir ekki undir þessi sveitarfélög að sameinast okkur þegar mórallinn er svona.

 

Fáum almennilegan móral í mannskapinn, leggjum eitthvað á okkur sjálfir, líkamlega og andlega...við búum til móralinn sjálfir..ekki yfirmenn.

 

Takið ákvörðun, ég skora á alla sem hafa sagt upp að velja slökkviliðið og draga uppsagnir sínar til baka. Jafnframt óska ég þess að slökkviliðsmenn snúi sér að því að byggja upp góðan starfsanda innan liðsins og sleppa tökum á hinu sem brýtur niður. Slökkviliðið verður aldrei annað en mannskapurinn í því. Komum okkur í form, líkamlega og andlega...ekkert krepputal. Þjónum samfélaginu stoltir  - Brunavarnir bjarga!

 

 

 

 

 

Bestu kveðjur úr Bláskógabyggð, Guðmundur Böðvarsson.

 

 

 

 

Ps. Ef einhverjum finnst hann þurfa að skamma mig fyrir þessi skrif er sá hinn sami beðinn að halda niðrí sér andanum, telja uppá 100 og hringja svo í mig S: 8921841