Með aukinni komu ferðamanna til Íslands hefur umferðarþungi á vegum landsins eðlilega aukist til muna. Hvað Árnessýslu varðar er umferðaraukning frá árinu 2012 til og með 2015 gríðarleg. Talsvert hlutfall þeirra bíla sem um uppsveitir Árnessýslu fara eru rútur eða breyttir jeppar sem flytja talsvert marga einstaklinga. Umferðatölurnar mæla hinsvegar einungis fjölda bifreiða sem um vegina fara en ekki hversu margir einstaklingar í þeim ferðast.

Frá árinu 2012 til og með 2015 hefur umferð bifreiða á ákveðnum svæðum í Árnessýslu aukist eins og fyrr segir gríðarlega. Til að mynd má nefna að bílaumferð frá Geysi að Gullfossi hefur aukist um 86% og bílaumferð frá laugarvatni og framyfir Geysi hefur aukist um 76%. Sé horft á þetta í tölum þá fóru 243 þúsund bílar frá Geysi að Gullfossi árið 2012 en árið 2015 voru þeir451 þúsund.

Þegar þessar tölur eru skoðaðar bera að hafa í huga að talsverður hluti þessara bíla eru rútur og stærri bílar með tilheyrandi álagi á vegakerfið og þá umferð sem fyrir er á vegunum. Vegirnir í uppsveitum Árnessýslu er víða þröngir og vegaxlir mjóar sem gerir ökumönnum þessara bifreiða erfitt um vik þegar mæta þarf annarri stórri bifreið.

Þó gleðjast megi yfir aukinni komu ferðamanna til landsins og þeim tekjum og tekjumöguleikum sem þeim fylgja er full ástæða fyrir þá sem starfa við öryggismál og bráðaþjónustu að vera á verði og í stakk búnir að grípa inní ef illa fer.

Við hjá Brunavörnum Árnessýslu erum meðvituð um ástandið og þá hættu sem af því getur stafað. Hvað umferðina sjálfa varðar á slökkviliðið erfitt um vik með að vera með fyrirbyggjandi aðgerðir en við getum hinsvegar æft og þjálfað okkar slökkviliðsmenn í viðbragði við þeim verkefnum sem upp koma í tengslum við óhöpp í umferðinni.

Brunavarir Árnessýslu hafa yfir að ráða vel þjálfuðum hlutastarfandi slökkviliðsmönnum er dreifast niður á átta slökkvistöðvar víðsvegar um sýsluna. Búnaður slökkviliðsins er öflugur og góður til björgunarstarfa og teljum við að samstarf milli aðila í björgunarþjónustu í Árnessýslu sé til fyrirmyndar sem gerir alla vettvangs vinnu fumlausa og öruggari.

Þrátt fyrir góða getu slökkviliðsins til björgunarstarfa höfum við engu að síður áhyggjur af þróun mála. Gríðarlega fjölgun bíla, stórra og smárra, á vegakerfinu eins og það er í dag, eykur líkur á því að óhöpp verði með tilheyrandi inngripi björgunaraðila.

Hér meðfylgjandi eru umferðatölur af nokkrum vegköflum í Árnessýslu og tala tölurnar sínu máli.