Slökkviliðin sinna 84% sjúkraflutninga í landinu.
Slökkviliðin sinna 84% sjúkraflutninga í landinu.

 

 

Sjúkraflutninga til slökkviliðanna

 

Velferðaráðherra, Kristján Þór sagði í fjölmiðlum, þegar hann ræddi um sjúkraflutninga að e.t.v. ætti að færa alfarið sjúkraflutninga í landinu til ríkisins eða þá til einkaaðila. Í lok viðtalsins kastaði hann þó ekki málinu alveg út af borðinu gagnvart sveitarfélögunum.

 

Ég þekki Kristján ekki af neinu nema góðu og bind töluverðar væntingar við hann í starfi  hans núna.  
Hann er reyndur sveitarstjórnarmaður og þekkir málaflokkinn vel.

 

Heldur fór þó málflutningurinn á skjön þegar ráðherrann fór í þær buxur að stilla máli sjúkraflutninga í gamalkunnan farveg, ríki á móti sveitarfélögum.

 

 

 

Slökkvilið landsins sinna 84% af  sjúkrafluitningnum

 

Sveitarfélögin sinna 84% af flutningi í landinu í gegnum slökkviliðin. Stærsta hlutfallið er á höfuðborgarsvæðinu. Restin, eða 16% eru á hendi ýmissa aðila, þar eru heilsugæslustöðvarnar með flest verkefnin.Varðandi samninga um flutninga á höfuðborgarsvæðinu voru menn komnir að mestu upp úr hjólförum ríkis og sveitarfélagaágreinings. Óháður aðili var fengin til að meta samninginn og niðurstaðan var skýr, hagkvæmast að reka flutninginn hjá slökkviliðum. Nú nefnir ráðherrann þetta samningsdrög og hrekkur aðeins í smá fýlu þegar stjórn SHS segir hingað og ekki lengra.

 

Þessi ferill samninga við SHS hefur verið ótrúlega langur, skrítin og erfiður.


Sparnaðarskoðun í samhengi

Kristján sagði að menn þyrftu að skoða málin í samhengi, sjúkrahúsin hafa þurft að hagræða. Hann á eflaust við að það þurfi einnig að gera varðandi sjúkraflutninginn.

Skoðum málið í samhengi, eins og ráðherra leggur til.

Við allan niðurskurðinn hjá ríki varðandi rekstur heilbrigðisgeirans, t.d. með sameiningu stofnanna eða þá niðurlagningu þeirra hér og þar, var m.a. vandanum velt  á sjúkraflutninginn. Stofnannaflutningar jukust til muna og allt umfang varð meira og erfiðara.

Sjúkraflutningur hjá slökkviliðunum hefur aldrei náð raunhæfri kostnaðartölu, sveitarfélögin hafa alltaf greitt með honum. Það gengur ekki að spara út frá þeirri tölu sem ríkið greiðir. Sparnaður þýðir ekkert annað en auknar greiðslur frá sveitarfélögum.

 

Hvað kostar sjúkraflutningur á Suðurlandi ?

Undirritaður hefur komið alloft að útreikningi á rekstri flutninga í Árnessýslu, nokkru sinnum hefur ríkið beðið slökkvilið Brunavarna Árnessýslu (BÁ) að taka að sér flutningana.

Öflugust var vinnan þegar lögreglan í Árnessýslu sagði upp samningi um sjúkraflutninginn árið 2005. Þær 26 milljónir króna sem ríkið greiddi fyrir flutninginn dugðu engan vegin. Sjúkraflutningurinn var rekinn á kostnað hefðbundinnar löggæslu. Ráðuneytið óskaði eftir samstarfi við BÁ. Strax í upphafi þess ferils tilkynnti fulltrúi ráðuneytis að 50 milljónir yrðu greiddar fyrir verkefnið. Sveitarstjórnarmenn í stjórn BÁ voru nokkuð áhugasamir að taka verkefnið að sér.Við yfirlegu varð niðurstaðan sú að það gengi ekki að reka flutninginn á 50 millj, 70 millj. væru nær lagi og það þyrfti að bæta í fljótlega upp í 90-100 millj. Launakostnaður var  mestur í þessum reikningum með tengdum gjöldum, t.d. lífeyrisskuldbindingum og einnig frítökurétti sjúkraflutningsmanna.  Með þessar staðreynd var farið á fund í ráðuneytið. Eftir fimm mínútur á fundinum tilkynnti fulltrúi ráðuneytisins að 53 milljónir væri það hámark sem í boði væri. Formaður stjórnar Brunavarna Árnessýslu sagði að með þeirri upphæð væri ljóst að sveitarfélögin í Árnessýslu þyrftu að greiða nær helming á móti ríkinu til að dæmið gengi upp. Við gengum af fundi án samnings.  Framhaldið var síðan að Heilbrigðisstofnun Suðurlands var fengið verkefnið í hendur.

Í samtölum við forustumenn Hsu þegar þeir voru að reikna hvað sjúkraflutningarnir kæmu til með að kosta kom upp að þeir teldu að reiknimódel BÁ væri nokkuð nærri lagi. Þeir voru strax komnir yfir 100 milljóna markið.

 

Sjúkraflutningur á Suðurlandi nálægt raunkostnaði

Síðan þetta var hefur aldrei fengist upp hjá ríkinu hvað sjúkraflutningarnir hjá Heilbrigðisstofnun Suðurland kostar fyrir utan einu sinni, þá var farin sú leið að biðja þingmann að spyrjast eftir þessu á hinu há alþingi. Þar komu svör sem erfitt var að byggja á.

Rekstur sjúkraflutninga í Árnessýslu er sá langdýrasti á landinu. Það má bara ekki „fréttast“   Reiknimódelið má ekki sýna.Ríkið sýnir ekki á spilin, þá gætu þeir brothættu samningar sem eru gerðir við sveitarfélögin um sjúkraflutninga víða um land  raskast verulega.

Það er raunar ekki rétt að kalla þetta „langdýrast“, kostnaðurinn við flutningana á Suðurlandi er sennilega nálægt raunkostnaði.

 

Ríkið semur við Samband ísl. sveitarfélaga !!!

Það er margkannað og þaul skoðað að sjúkraflutningar í landinu fara saman með starfi slökkviliðanna. Nægir að skoða hin ýmsu lönd sem hafa komist að þessari niðurstöðu. Sjúkraflutningar eru samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga.

Frá árinu 1990 hafa sjúkraflutningar á Íslandi verið á forræði ríkisins.  Fram að því, frá upphafi skipulagðra sjúkraflutninga, voru flutningarnir að mestu leyti á ábyrgð sveitarfélaganna í landinu og/eða í höndum sjálfboðaliða.  Í lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 59/1983 voru sjúkraflutningar í fyrsta sinn tilgreindir í lögum sem hluti af verkefnum heilsugæslunnar.  Rekstrarkostnaður við heilsugæslu var þá greiddur af sveitarfélögunum.

Nú þarf og á að koma verkefninu  varanlega til sveitarfélagana. Sveitarfélögin tefla fram lögbundnum og þrautþjálfuðum slökkviliðsmönnum sínum í þetta verkefni í samvinnu við ríkið.  Sjúkraflutningar eiga að vera á einni hendi, það tryggir samhæfingu mannaflans.

Ef flutningarnir fara frá slökkviliðunum, eyðileggur það margra ára samþættingu þessara starfa og rýrir styrk slökkviliðanna verulega.

Sveitarstjórnarmenn  þurfa aðeins að spýta í lófana varðandi þessi mál. Í dag er hvert slökkvilið að semja sérstaklega við ríkið um þá flutninga sem þeir annast. Nú eiga aðilar að sameinast undir merkjum Sambands íslenskra sveitarfélaga og ganga á fund ráðherra og ná samkomulagi til langs tíma um sjúkraflutninga í landinu.

Mismunandi samningar, allt of skammir hafa eyðilagt alla möguleika slökkviliðanna til að skipuleggja starfið til langs tíma með framþróun og menntun í huga.

Högum okkur eins og okkur er nauðsyn að gera í okkar fámenna heimsþorpi.

Vinnum saman að langtímalausn um sjúkraflutninga.

Kristján Einarsson, slökkviliðsstjóri BÁ