Unna Björg Ögmundsdóttir fimmtudagurinn 8. desember 2016

Kertaskreytingar á aðventu

Starfsfólki Brunavarna Árnessýslu hefur borist til eyrna frásagnir um tvö aðskilin tilfelli nú á aðventunni þar sem reykskynjarar á heimilum hafa komið fólki til bjargar eftir að gleymst hafði að slökkva á kertaskreytingum áður en heimilisfólk fór að sofa.

Í báðum tilfellunum gerðu reykskynjarar íbúum viðvart. Kertaskreytingarnar loguðu og reykur var orðinn þónokkur. Notast þurfti við slökkvitæki til að slökkva í skreytingunni í öðru tilfellinu. Húsráðendur þökkuðu reykskynjurunum og því að þeir vissu hvar slökkvitækið væri staðsett að ekki fór verr.

Vegna þessarra tveggja aðskildu tilfella viljum við hjá Brunavörnum Árnessýslu benda fólki á að:

  • Gæta þess að kertaskreytingar séu gerðar úr óbrennanlegum efnum.
  • Gæta þess að slökkt sé á kertum þegar herbergi eru yfirgefin eða gengið er til náða.
  • Yfirfara reykskynjara reglulega, athuga hvort þeir séu virkir – og fjölga þeim ef þurfa þykir.
  • Athuga hvar slökkvitæki eru staðsett í íbúðinni og hvort kominn sé tími á yfirferð á þeim.

 

Með ósk um gleðilega aðventu, með öryggið í fyrirrúmi,

starfsfólk Brunavarna Árnessýslu.