Klippuæfing hjá Brunavörnum Árnessýslu

 

Laugardaginn 30 maí héldu Brunavarnir Árnessýslu í samstarfi við sjúkraflutninga HSU og Björgunarfélag Árborgar klippuæfingu.  Á þessari æfingu var lögð áhersla á björgun fólks úr bílflökum með þeim búnaði sem slökkviliðið hefur yfir að ráða á slökkvistöðvum liðsins á Selfossi, Þorlákshöfn og Árnesi. Æfingunni stýrði Halldór Ásgeirsson einn af varðstjórum BÁ.

 

Til þess að æfingin væri sem raunverulegust lagði Björgunarfélag Árborgar til mannskap í hlutverk hinna slösuðu. Það má með sanni segja að leikarar æfingarinnar hafi staðið sig með sóma.  Þeirra aðkoma gerði verkefnið mun meira krefjandi fyrir þá sem að björgunarhluta æfingarinnar komu.

Sjúkraflutningamenn HSU stýrðu þeim þætti verkefnisins sem laut að meðferð slasaðra og slökkviliðsmenn BÁ sáu eðli málsins samkvæmt um klippuhluta æfingarinnar.

 

Nokkrar klippuæfingar hafa verið haldnar á æfingartímabili BÁ sem stendur frá hausti til vors og markaði æfingin lok þessa æfingartímabils. Eru slökkviliðsmenn BÁ því að mestu komnir í frí frá stórum æfingum fram í september.

 

Eðli málsins samkvæmt er það alltaf von slökkviliðsmanna að útköll verði fá sem engin. Veruleikinn er því miður sjaldnast þannig. Það er því afar brýnt að björgunaraðilar séu vel þjálfaðir og 100% klárir til verka þegar á þarf að halda.