Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Þorlákshöfn og Hveragerði komu saman í gærkvöldi í Þorlákshöfn til þess að æfa leitartækni fyrir reykkafara. Slökkviliðsmennirnir æfðu svokallaða kalda reykköfun en þá er lögð áhersla á að reykkafararnir virki önnur skynfæri en augun við vinnu sína. Að þessu sinni voru reykkafararnir blindaðir með hlífum sem settar eru fyrir reykköfunarmaska þeirra en stundum eru rýmin fyllt með gervireyk úr reykvélum.

Reykkafararnir fóru saman tveir og tveir og leituðu að fórnarlömbum sem þeir þurftu að koma út í öruggt skjól. Það getur oft verið ansi snúið að leita blindaður í byggingum og hvað þá að rata aftur sömu leið út berandi fórnarlamb með sér eins og þeir fengu svo sannarlega að reyna á eigin skinni í gær. Æfingin gekk vel og voru menn að vonum sáttir með þá vinnu sem þarna var framkvæmd og æfð.