föstudagurinn 17. september 2010

Loksins í nýja slökkvistöð !

Undirskriftahópurinn
Undirskriftahópurinn
1 af 10
Í gær, fimmtudag 16. september kl. 12.20 var það endanlega staðfest að nýjar höfuðstöðvar Brunavarna Árnessýslu verða í framtíðinni að Árvegi 1 Selfossi. Sveitarfélagið Árborg, eða fulltrúar þess, skrifuðu þá undir kaupsamning við Íslandsbanka og keyptu þar með þrotabú byggingafélags Björgunarsveitar Árborgar. Samhliða þessum gjörningi var gengið frá leigusamningum við Brunavarnir Árnessýslu og Heilsugæslu Suðurlands.
Fyrirhugað er síðan að útvega Björgunarsveit Árborgar aðstöðu í húsinu, gengið verður frá þeim samningi á næstu dögum.
Mikil vinna er framundan í húsinu svo þeir aðilar sem þar verða geti flutt inn. Húsið var að stórum hluta tilbúið þegar byggingafélagið varð gjaldþrota og tóku flestir þeir aðilar sem stóðu að byggingu þess allar innréttingar og tæknibúnað úr húsinu þegar þrotaferlið fór í gang. Eftir u.þ.b. átta ára sér nú loks fyrir enda á þeirri bið sem hefur orðið á því að slökkviliðið kæmist í þokkalegt húsnæði. Gamla slökkvistöðin við Austurveg 52 Selfossi er löngu sprungin utan af starfseminni og einnig mjög lélegt hús. Hún hefur þó þjónað tilgangi sínum í árana rás.
Brunavarnir Árnessýslu munu leigja 1.126 fermetra í þessu 2.800 fermetra húsi. Fyrir utan gömlu slökkvistöðina hefur BÁ leigt á Selfossi húsnæði undir körfubíl og geymslur. Nú kemst allur flotinn á einn stað.
Fyrirhugað er að ljúka framkvæmdum fyrir 1. desember n.k. og er því mikil tilhlökkun hjá BÁ fólki að flytja inn.
HSu verður einnig í húsinu eins og áður er talið, en þeir sjá um sjúkraflutninga í Árnessýslu.
Fyrsta verkefnið er að malbika athafnasvæðið kringum húsið.
Myndir eru frá undirskrift samninga, þær tóku Ármann Höskuldsson og KEi.