þriðjudagurinn 20. apríl 2010

Mikill eldur í grindverki við Félagslund

Útkall kom rétt fyrir kl. 24.00 s.l. sunnudagskvöld þess efnis að eldur logaði í grindverki við Félagslund í Gaulverkabæjarhreppi hinum forna.
Þegar slökkviliðið kom á staðinn kom í ljós að eldurinn hafði kviknað í ruslagámi sem brunnið hafði og eldurinn komst í grindverkið sem gámurinn stóð við.
Líklegt að kviknað hafi í útfrá rusli sem hent var í gáminn.
Mikill hiti skapaðist af þessu enda mikill eldur. Hitinn sprengdi ytra gler í sjö rúðum í félagsheimilinu þannig að ljóst er að litlu mátti muna að stórtjón yrði.
Allt tiltækt lið á Selfossi var kallað út auk þess sem slökkviliðsmenn á Stokkseyri komu með tankbíl á staðinn.
Fljótt gekk að slökkva eldinn.

Eldur þessi kallar á umræðu um fjarlægð sorpíláta frá húsum.
Hér fara leiðbeiningar um plastílát:

Leiðbeiningar Brunamálastofnunar: Útgefið 04.2007

Reglur um notkun sorpíláta úr plasti

Algengt er að sorpílát sveitarfélaga séu úr plasti. Sorpílát þessi eru 240 lítra, 13 - 17 kg að þyngd, gerð úr polyethylen og eru búin tveimur hjólum og loki. Brunamálastofnun hefur látið brenna nokkur þessara nýju sorpíláta í tilraunaskyni til að kanna hvernig þau brenna og til að meta nauðsynlegar fjarlægðir þeirra frá húsum en alloft hefur orðið tjón á húsum út frá brunum í þannig sorpílátum. Lítill munur kom í ljós á brunaeiginleikum einstakra gerða íláta sem brennd voru en þó brunnu léttari ílátin fyrr en hin þyngri.
Um sorpgeymslur gilda ákvæði gr. 84 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Þar segir m.a. að gerð sorpíláta sé háð samþykki heilbrigðisnefndar. Ef óskað er eftir að nota sorpílát úr plasti skal miða við eftirfarandi reglur sem taka mið af niðurstöðum ofangreindra prófana:
1. Þegar um er að ræða eitt eða tvö sorpílát skulu þau standa a.m.k. 3 m frá timburvegg en a.m.k. 2 m frá járnklæddum vegg eða vegg með yfirborð í flokki 1, og þau mega standa upp við vegg á steinhúsi. Fjarlægðin skal þó aldrei vera minni en 3 m miðað við stystu láréttu fjarlægð í glugga eða timburþakskegg en 5 m sé mælt lóðrétt.
2. Séu sorpílátin 3 eða fleiri skal miða við ofangreindar fjarlægðir að viðbættum 2 m.
3. Séu sorpílátin fleiri en 10 skal hafa þau í óbrennanlegum E30-skýlum sem opnast frá húsinu, mest 10 í hverju skýli. Sama gildir verði ofangreindum fjarlægðarreglum ekki viðkomið enda þótt sorpílátin séu færri.
4. Bannað er að nota sorpílát úr plasti innandyra, nema í sorpgeymslum sem byggðar eru í samræmi við ofangreind ákvæði byggingarreglugerðar.