Aðalbjörg II RE 5 er glæsilegt grænt fley.
Aðalbjörg II RE 5 er glæsilegt grænt fley.
Um síðustu helgi björguðu slökkviliðsmenn í Þorlákshöfn því að vélbáturinn Aðalbjörg II RE 5 frá Reykjavík sykki  í höfninni.
Þegar tilkynning kom undir morgun var báturinn u.þ.b. að sökkva.  Dælum var komið fyrir hið snarasta og öllum mætti slökkviliðsins beitt til að losa sjó úr lestum.  Það fór sælustraumur um viðstadda þegar báturinn tók að rétta við sér og stíga í sjónum.  Sem betur fór komst sjór ekki í vélarrúm né vistarverur, en það mátti engu muna.  Slökkviliðsmenn BÁ í Þorlákshöfn voru þarna á ferð í sínu fyrsta útkalli eftir sameiningu liðsins í Höfninni við BÁ.
Þrír menn frá Selfossi fóru einnig á staðinn og aðstoðuðu félaga sína í Þorlákshöfn.
Í ljós kom, þegar farið var yfir útkallið í lok verkefnisins að slökkvistöðin í Þorlákshöfn þarf að vera aðeins betur búin til að takast á við svona verkefni sem þó er ekki skilgreint í lögum sem verkefni slökkviliðs. Helst eru það öflugri lausar dælur og lengri barkar. Ekki var unnt að nota öfluga dælu nýja slökkvibílsins í Þorlákshöfn, þar sem báturinn var of langt frá bryggjukantinum. Hann lág utaná tveimur bátum. Unnið verður að úrbótum lausabúnaði sem fyrst í samvinnu með heimamönnum.